152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:42]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta ákvæði var sett inn í lögin núna 2020 og er sérstök ívilnun um að útbúa auglýsingu sem þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Þetta hefur ekki verið nýtt hingað til, það er talið talsvert viðkvæmt mál fyrir ráðherra að rökstyðja hvernig þú velur þá námsgreinar, hvaða námsgrein ætti að fá ívilnun ofar öðrum. Skilyrðin eru þau að Byggðastofnun þurfi m.a. að vinna skýrslu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að bregðast við ákveðnum aðstæðum í ákveðnum byggðarlögum. Sú skýrsla hefur ekki verið unnin en á grundvelli þeirrar skýrslu væri hægt að skoða rökstuðning með þessu. Þetta er eitthvað sem mætti líka skoða með nýju fjármögnunarlíkani. Mörgum þykir leiðinlegt þegar rætt er mikið um fjármögnunarlíkan háskólanna. Það hljómar kannski ekki sem spennandi umræðuefni en það er raunverulega tólið þar sem hægt er að búa til rétta hvata fyrir t.d. samfélagslega mikilvægar greinar, námsgreinar, hvata fyrir færniþörf vinnumarkaðarins, þarfir samfélagsins. Í þessari umræðu er ekki bara verið að tala um að háskólar séu til fyrir atvinnulífið. Þeir eru fyrir samfélagið og samfélögin í kringum landið. Það er ótrúlega mikilvægt að við bjóðum þannig nám og hvetjum fólk til að fara í nám þar sem til verða störf í framtíðinni, þar sem til verða tækifæri og verðmætasköpun líka til lengri tíma. Þar er spennandi verkefni sem ekki hefur tekist að klára, sem hefur dregist í allt of langan tíma, þ.e. að endurskoða hið gamla fjármálalíkan þar sem helstu hvatarnir eru varðandi fjölda nemenda en ekki annað. Það er eitt af sex forgangsverkefnum sem ég hef sett mér að klára í nýju ráðuneyti. Það skiptir gríðarlega miklu máli til að við nýtum þann kraft í að geta menntað fólk fyrir þau samfélög sem kalla eftir ákveðinni menntun og þurfa lífsnauðsynlega á henni að halda.