152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst í mínum huga að við Íslendingar öxlum okkar ábyrgð í þessum efnum til samræmis við það sem aðrar þjóðir gera. Hér er löggjöf reyndar rýmri þegar kemur að þessum málaflokki en gengur og gerist, þótt boðaðar hafa verið breytingar á því til að við vinnum nær því sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Nú hafa á þessum tíma, um mánaðamótin mars/apríl eða í byrjun apríl, komið hingað á flótta um 1.000 manns. Það er miklu meira en við höfum nokkru sinni tekist á við þannig að áskoranirnar eru miklar. Það var erfitt að gera sér grein fyrir þessari þróun þó að vissulega væri gert ráð fyrir því og ítrekað verið á það bent af hálfu ráðuneytisins að það yrði holskefla hingað af fólki þegar Covid-ástandi létti. En við erum sem sagt að horfa á enn stærra og umfangsmeira mál en lá fyrir þegar vinna við fjárlagagerð ársins var í smíðum. Við höfum brugðist við því með þeim hætti að ég hef gert ríkisstjórn grein fyrir stöðunni og fyrir því að við munum, til að standa undir lögbundnum þáttum sem við eigum að sinna í þessum málum, þurfa að fara fram úr þeim fjárveitingum sem eru til staðar. Annað er óhjákvæmilegt. Hversu mikið það verður er erfitt að átta sig á í því umhverfi sem við erum komin í, en það mun að mínu mati hlaupa á hundruðum milljóna króna. Útgjöld til málaflokksins í dag nema milljörðum, sennilega einhvers staðar í kringum 4 milljörðum, og er þá ekki allt talið.