152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér er tekið fyrir mikilvægt mál og sýnir vel þróunina í starfi þessarar nefndar, hversu mikil þörf var fyrir að hún yrði sett á laggirnar á sínum tíma. Við erum líka núna í undirbúningi við breytingu á lögum þar sem við erum í raun að auka rannsóknarheimildir lögreglu, sem er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega í tengslum við skipulagða brotastarfsemi og viðkvæma málaflokka eins og kynferðisafbrot. Slíkri aukinni ábyrgð og skyldum sem við færum lögreglunni verður auðvitað að svara með öflugra innra eftirliti. Þetta er því til skoðunar hjá okkur núna samhliða þeim breytingum sem við erum að innleiða og því ákalli sem verið hefur frá þessum aðilum. Ég setti á laggirnar sérstakan starfshóp í samvinnu við lögreglustjórana strax í byrjun þessa árs og ég vænti einhverra niðurstaðna í formi tillagna frá þessum starfshópi nú á vordögum. Þar erum við að skoða marga þætti í starfsemi lögreglunnar með það að leiðarljósi að geta nýtt betur þann 21 milljarð sem löggæslan kostar á ári, 21.000 millj. kr. Þetta eru miklir peningar. Það er ákall eftir fjölgun lögreglumanna og við erum að skoða betur hvernig við getum nýtt þetta fjármagn með því að samræma störf og aukna yfirsýn. Það er aukið álag í öllu rannsóknastarfi lögreglu sem fylgir breyttum aðstæðum í formi aukinnar tölvuþekkingar og tölvunotkunar í skipulagðri glæpastarfsemi. Það er til skoðunar í þessum hópi sem vinnur á vegum ráðuneytisins og ég vænti þess að við munum bregðast við því þegar sú vinna liggur fyrir.