152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Í þessu ágæta plaggi sem við erum hér að fjalla um segir um málaflokkinn réttindi einstaklinga, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn málefnasviðsins er að tryggja öllum einstaklingum skilvirka og sanngjarna þjónustu svo að þeir fái notið þeirra réttinda sem þeim ber hér á landi.“

Meginmarkmið málefnasviðsins eru m.a. fagleg og skilvirk málsmeðferð stjórnvalda.

Árið 2015 leitaði til landsins ung sýrlensk fjölskylda, hjón með tvær dætur á leikskólaaldri, og óskaði eftir því að fá stöðu flóttamanna hér á landi. Þeim hafði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi nokkru áður en höfðu búið þar við algera örbirgð, án aðgangs að húsaskjóli, heilbrigðisþjónustu og öðrum grunnþörfum og án þess að eiga nokkra möguleika á að búa börnum sínum öryggi gegn ofbeldi og annarri ógn, hvað þá viðunandi lífsskilyrði. Samkvæmt þágildandi lögum um útlendinga bar íslenskum stjórnvöldum ekki að taka umsókn þeirra til efnismeðferðar hér á landi. Neitaði Útlendingastofnun þeim því um áheyrn og fyrirskipaði að þau skyldu flutt aftur á götuna í Grikklandi án þess að umsókn þeirra væri tekin til skoðunar.

Þessi ungu hjón voru hins vegar lánsöm því að þau náðu eyrum og augum almennings á Íslandi sem leiddi á endanum til þess að með nokkuð metnaðarfullum lögfræðilegum loftfimleikum var fjölskyldunni veitt tímabundið dvalarleyfi til eins árs án atvinnuleyfis, enda buðu lögin ekki upp á annað á þeim tíma að mati stjórnvalda. Með setningu núgildandi laga um útlendinga sem sett voru árið 2016 var reglunum breytt á þann veg að stjórnvöldum varð heimilt og jafnvel skylt að taka umsóknir fólks í sömu stöðu og þessi litla fjölskyldan til skoðunar hér á landi, enda var krafa almennings hávær í þá átt.

Nú vill hæstv. dómsmálaráðherra breyta lögunum til baka og afnema þessa skyldu stjórnvalda til að skoða mál af þessu tagi ofan í kjölinn. Þó er stórum orðum fullyrt að réttarvernd fólks muni ekki minnka við breytinguna. Ég vil því byrja á að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra með hvaða hætti hann telji að þessi breyting auki skilvirkni við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd ef ekki á að koma til réttarskerðingar fólks í svipaðri stöðu og unga fjölskyldan frá Sýrlandi.