152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Allt eins líklegt að ráðherrann vilji einhverjar aðrar niðurstöður í mál heldur en komið hafa fram og allt á grundvelli útlendingapólitíkur þess flokks sem hann stendur fyrir. Hér er verið að reyna að draga fram einhverja útlendingaandúð af hálfu Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. Þetta er svo sem kunnuglegt frá hv. þingmanni en mjög ósmekklegt, virðulegur forseti, og ómaklegt. Er það nú ekki þannig að þessi sami hv. þm. Sigmar Guðmundsson talar mikið fyrir því að okkur sé betur borgið innan Evrópusambandsins? Þangað eigum við að fara, í faðm þess, með allt okkar regluverk og alla okkar umgjörð. Það útlendingafrumvarp sem ráðherrann hefur lagt fram nú og liggur hér til umræðu, það gengur skemur í þessum málum gagnvart þeim sem hingað leita heldur en það regluverk sem gildir í Evrópu. Við erum þó að nálgast það mikið og erum að reyna að fylgja því eftir. Er það þá þannig að regluverk Evrópusambandsins í þessum málum sé uppfullt af andúð í útlendingapólitík?

Hv. þingmaður verður að gæta samræmis í málflutningi sínum og nálgast það með samræmingu hvert hann vill stefna. Hvernig kostnaðarmatið var unnið? Það eru auðvitað sérfræðingar ráðuneytisins sem lögðust yfir það að meta kostnaðinn við þetta verkefni. Það er ljóst, eins og komið hefur fram í umræðunni fyrr í dag, að það var mikill ófyrirsjáanleiki við gerð fjárlaga fyrir þetta ár þegar það kom alveg sérstaklega að þessum málaflokki. Það var vitað að hér yrði mikil aukning, hún er orðin miklu meiri en hún var, og ég hef gert ríkisstjórn grein fyrir því og við munum (Forseti hringir.) þurfa að fara fram úr til að geta veitt þessa þjónustu og aðra þjónustu í móttöku flóttamanna. (Forseti hringir.) Það er augljóst. Hvernig þetta var unnið? Það var auðvitað unnið með sérfræðingum eftir bestu þekkingu og þeim tölum sem fyrir lágu.