152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttir fyrir að taka þessa umræðu upp hér. Heilbrigðisþjónusta er almennt í eðli sínu viðkvæm þjónusta. Þar er kjarninn öryggi sjúklinga. Það er alltaf það sem við horfum til. Ég get bara tekið undir með hv. þingmanni af því að við felum Sjúkratryggingum það mikilvæga hlutverk að passa upp á að allir verkferlar og skráningar, atvikaskráningar, að þetta sé allt í samræmi við lög og fylgja því eftir að það sé mjög vel skilgreint hvaða þjónustu við erum að kaupa, að sú þekking sé til staðar sem við erum að kaupa.

Svo er það hin hliðin, af því við erum að treysta á fjöldamörg önnur félög — ég get nefnt Krýsuvík, Hlaðgerðarkot og við þekkjum þetta með skimanir og Krabbameinsfélagið. Allt er þetta af góðum hug og miklum krafti áhugafólks í upphafi og kjarnar mjög margt sem við eigum að venjast hér á Íslandi og einkennir okkur kannski að mörgu leyti, það er þessi kraftur og máttur félagasamtaka sem er oft mikill kostur. En heilbrigðisþjónusta er sérstök. Öryggið er svo mikið í fyrirrúmi og það er svo mikilvægt. Það verðmætasta sem við eigum í heilbrigðisþjónustunni er sennilega öryggið og öryggiskenndin. Ég held að umræða liðinna daga hafi leitt það í ljós að þetta þarf auðvitað að vera gagnkvæmt af því að þetta er viðkvæm þjónusta. Gagnkvæmt, segi ég, þegar um ræðir öryggi sjúklingsins en þá er það líka öryggi starfsmannsins í að veita þessa umönnun. Það er alltaf þessi tími. (Forseti hringir.) Þetta er of stór umræða til að leysa á tveimur mínútum.