152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:16]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er jafn forviða og hv. þm. Kristrún Frostadóttir yfir þeirri aðferð og því vinnulagi sem verið er að viðhafa hérna. Ég sit í fjárlaganefnd ásamt henni, og reyndar í efnahags- og viðskiptanefnd líka, og ég hef aldrei heyrt að verið væri að bjóða fólki að kaupa fyrir milljón eða tvær milljónir. Aldrei. Það var alltaf talað um stóra fagfjárfesta sem gætu verið hryggjarstykkið í starfsemi bankans til framtíðar. Allan tímann. Það er því verið að koma aftan að fólki sem hefur í góðri trú samþykkt að leggja þetta til. Bankasýslan er greinilega ekki starfi sínu vaxin. Það liggur bara alveg fyrir. Þeir sem keyptu fyrir eina milljón í gegnum lokað útboð fengu ávöxtun á þessa milljón á einni nóttu eins og við hin fáum af bankareikningnum okkar á einu ári. (Forseti hringir.) Það er það sem verið er að bjóða íslenskum almenningi hér.