152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Við hefðum getað fengið botn í þetta mál miklu fyrr ef stjórnarliðar væru ekki alltaf svona feimnir við að taka þátt í umræðu, hefðu þeir bara komið hingað í byrjun þessarar fundarstjórnar og lýst vilja sínum til að styðja hugmynd Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem mig minnir að hafi fyrst komið hér í pontu með þá uppástungu að stofna rannsóknarnefnd um þessa einkavæðingu á Íslandsbanka. Nú erum við miklu seinna búin að fá jákvæð viðbrögð frá fulltrúum allra flokka hér í sal þannig að ég legg til, svo að ég vindi mér að fundarstjórn forseta sérstaklega, að forseti að lokinni umræðu um fjármálaáætlun í dag geri hlé á þessum þingfundi til að gefa annaðhvort stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða þingflokksformönnum næði til að vinna þingsályktunartillögu um rannsóknarnefnd til að skoða einkavæðingu Íslandsbanka, hina síðari, svo að sú tillaga geti litið dagsins ljós í meðflutningi allra flokka á Alþingi hér í dag og við getum rætt hana á morgun. Þá getum við farið í páskafrí. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)