152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:50]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Barnið er brennt og ofureðlilegt að það sé tortryggið og efist um að hér sé allt með felldu. Ég hef það að leiðarljósi í lífinu að láta menn njóta vafans og ég óttast ekki fyrir mína parta, eða þeirra sem stóðu að þessu söluferli, að það sé rannsakað í þaula hvernig að hlutunum var staðið. Ég vona bara og ég treysti því að það hafi verið rétt og heiðarlega gert. Ef annað kemur í ljós er það tilefni til mikilla umræðna hér. Þess vegna tek ég undir bæði hugmyndir um Ríkisendurskoðun og rannsókn af hvaða toga sem menn óska. Við erum að díla hér og fjalla um dálítið einkennilegt fyrirbrigði. Hvernig eignaðist ríkið Íslandsbanka? Borgaði ríkið fyrir Íslandsbanka? Þetta var gjaldþrota banki í einkaeigu. Þetta var hræ sem var gjaldþrota, það var hirt innan úr því góssið á hrakvirði og heimilin í landinu stóðu uppi með tvöfaldar skuldir á því nafnvirði sem upphaflega var efnt til. Það eru heimilin í landinu sem eiga Íslandsbanka og eigum við ekki að reikna restina sem ekki er þegar búið að selja og færa það þeim sem raunverulega töpuðu öllu í þessu hruni?