152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. En það eru til útreikningar á því hvernig hægt er að brúa kjaragliðnunina. Þeir útreikningar eru til og það hefði verið hægt að setja það inn, a.m.k. áætlun fyrir árið 2023, sem er grunnurinn fyrir fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2023.

Frú forseti. Ég reyndi að finna orðið starfsgetumat í textanum um málefnasvið 27, sem fjallar um örorku og málefni fatlaðs fólks, en ég fann það ekki. Ég skil samt þann texta sem þar er þannig að það eigi að breyta kerfinu þannig að það hvetji til atvinnuþátttöku. Þýðir það starfsgetumat? Það hefur ekkert upp á sig að breyta matinu á stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild hefur engum skyldum að gegna þegar kemur að ráðningu fólks í hlutastörf eða störf með sveigjanlegum vinnutíma. Sumir geta verið með 100% starfsgetu suma daga en í annan tíma aðeins með 20%, svo dæmi sé tekið. Einnig þarf að taka tillit til aðstæðna úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig á að tryggja fólki örugga og mannsæmandi framfærslu? Hvað gerist ef fólk fær ekki vinnu eftir starfsgetumatið? Verður raunin sú að eftir starfsgetumat fækki fólki á lífeyri en fjölgi í staðinn á atvinnuleysisbótum? Þaðan gæti leiðin legið á framfærslu sveitarfélaga þar sem bjóðast enn lakari kjör. Hefur hæstv. ráðherra t.d. kynnt sér rannsóknir á afleiðingum starfsgetumats í Bretlandi? Ég vil benda hæstv. ráðherra á tvær rannsóknir á afleiðingum starfsgetumats þar í landi sem báðar birtust árið 2015. Önnur er gerð af fræðimönnum í háskólunum í Liverpool og Oxford og ber yfirskriftina „Ekki gera illt verra“. Hin er gerð af fræðimönnum frá háskólanum í Liverpool og heilbrigðisstofnunum í Bretlandi og ber yfirskriftina „Hæfur til að starfa eða hæfur til að vera atvinnulaus“. Báðar gefa rannsóknirnar afgerandi niðurstöður um slæm áhrif starfsgetumats á þá sem eru með skerta starfsgetu vegna geðrænna kvilla eða langvarandi veikinda.