152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:24]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Það dylst sjálfsagt engum að á næstu misserum megi geri ráð fyrir því að fjöldi flóttafólks hér á landi muni aukast. Árin 2020 og 2021 sóttu eðli málsins samkvæmt færri flóttamenn um vernd á Íslandi vegna ferðatakmarkana af völdum Covid. Það lá því strax ljóst fyrir og var um talað að um leið og takmörkunum yrði aflétt væru líkur á því að hingað myndu leita fleiri einstaklingar. Síðan takmörkunum var aflétt hefur svo stríð brotist út í Úkraínu og milljónir manna eru komnar á flótta innan Evrópu og eru það einstaklingar bæði frá Úkraínu og Rússlandi. Því vekur það furðu að fjárframlög til málefna innflytjenda og flóttamanna fyrir árið 2022 eru hálfum milljarði lægri en árið 2020. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að gefa verði flóttafólki tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig er unnt að ná þeim markmiðum með því að minnka fjármagnið þegar flóttafólki fjölgar?

Það hefur verið umræða um samræmda móttöku flóttafólks í yfir áratug en lítið gerðist fyrr en fyrir tiltölulega skömmu síðan og er samræmd móttaka flóttafólks nú loksins, hægt og rólega, að taka á sig mynd en þó ekki nógu hratt. Staðan er sú að fjöldi sjálfboðaliða hefur tekið að sér móttöku flóttafólks með ýmsum hætti undanfarnar vikur því ríkið er ekki að uppfylla sínar skyldur til fulls. Því þurfa almennir borgarar að gefa eigin tíma, veita þjónustu, jafnvel útvega fæði og húsnæði. Sjálfboðaliðar eru meira að segja að taka að sér að koma upp barnagæslu, sem þó er ekki hægt að kalla leikskóla, enda uppfyllir það ekki skilyrði laga um leikskóla. Sjálfboðaliðar sinna sínu starfi af hugsjón og mikilli fagmennsku og reyna að gera eins vel og þeir geta. (Forseti hringir.) Hins vegar er varhugavert að aðgerðir séu ekki samræmdar og að ríkið hafi þar litla sem enga aðkomu. (Forseti hringir.) Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Eru einhver áform um að koma til móts við þennan hóp sjálfboðaliða (Forseti hringir.) eða að koma á samstarfi við hann? (Forseti hringir.) Eða er það planið að láta almenna borgara um að stoppa í þau göt sem stjórnvöld geta ekki eða vilja ekki fylla upp í?

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmann á að virða ræðutímann sem er tvær mínútur.)