152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:36]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna hér í dag. Þjónusta við eldra fólk er verkefni sem ég og hæstv. heilbrigðisráðherra höfum sammælst um að vinna saman vegna þess að endurskoðun þjónustunnar mun fela í sér að við samþættum félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu í mun meira mæli en við gerum í dag. Það eru til góð dæmi um þetta hér á Íslandi. Það eru til mjög góð dæmi um þetta víða erlendis, m.a. í Danmörku, svo dæmi sé tekið. Við ætlum að skipuleggja þetta þannig og erum búnir að óska eftir tilnefningum í verkefnahóp sem leiðir þetta með sameiginlegum formanni okkar, fulltrúum ráðuneyta okkar og fulltrúum fjármálaráðuneytisins. Ég held að hér liggi ekki bara gríðarleg tækifæri í að gera betur heldur sé líka algerlega nauðsynlegt fyrir okkur að ráðast í þessi skref í ljósi þess að hlutfallslega erum við að eldast sem þjóð og til þess að geta tekist á við það, bæði með það að markmiði að fólk geti verið lengur heima hjá sér, það njóti meiri lífsgæða vegna þess að heilsufar þess er betra og í ljósi þess að við getum sparað fjármagn í kerfinu með því að seinka því að fólk fari í dýrustu úrræðin, sem eru hjúkrunarheimili, þá sé til óskaplega mikils að vinna. Hv. þingmaður kom líka inn á hlutalífeyri og valfrelsi við starfslok sem ég kem inn á í svari mínu á eftir.