152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra svarið varðandi málefna aldraðra. Það er gott að heyra að markviss vinna er að fara í gang í samstarfi þessara tveggja ráðuneyta. En ég vil árétta mikilvægi þess að það sé þétt samráð við sveitarfélögin í þeirri vinnu. Nú langar mig að snúa mér að málefnasviði 22, sem framhaldsfræðslan heyrir undir. Ég er þeirrar skoðunar að það felist ýmis tækifæri í því að nú skuli framhaldsfræðslan vera í sama ráðuneyti og vinnumarkaðsmálin þó að samstarf við önnur skólastig verði að sjálfsögðu áfram mikilvægt. Framhaldsfræðslunni er einkum ætlað að þjónusta einstaklinga með stutta skólagöngu og veita einstaklingum tækifæri til að hefja nám að nýju og til þess að fá reynslu sem aflað hefur verið utan formlega skólakerfisins metna. Náminu og ráðgjöfinni er einnig ætlað að auka tækifæri fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu. Og þá er ég komin að því sem mig langar að ræða hér, stóru áskoruninni í framhaldsfræðslunni sem er íslenskukennsla fyrir innflytjendur, eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á hér í umræðunni. Það er íslenskukennslan og mat á fyrra námi fólks sem hingað flytur. Hvernig styður fjármálaáætlunin við þá vinnu? Eins og við vitum þá fjölgar innflytjendum ár frá ári og voru þann 1. janúar 2021 15,5% af heildarmannfjölda á Íslandi. Það sem ég vil líka leggja áherslu á hérna er að þjónustan við þennan hóp, íslenskukennslan, sé tryggð um land allt. Ég velti því fyrir mér hvernig við getum tryggt að símenntunarmiðstöðvar, t.d. eins og Austurbrú og Þekkingarnet Þingeyinga sem sinna mjög dreifbýlum svæðum með mörgum byggðakjörnum, geti sinnt þörfum allra innflytjenda á svæðinu.