152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var bara ágætt, svo langt sem það nær. Aðeins áfram um þetta. Við í mínum flokki, Viðreisn, höfum lagt til að eðlilegt gjald sé greitt fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni í gegnum markaðsgjald. Við viljum að ákveðinn hluti kvótans sé settur á opinn markað á hverju ári sem skilar íslensku þjóðarbúi talsvert hærri tekjum en núverandi kerfi. Kosturinn við það er auðvitað sá að þá eru það ekki einhverjir aðilar úti í bæ sem eru að ákveða gjaldið, það er bara ákveðið á markaði. Það hefur verið skilningur þeirra sem lengst hafa verið við völd í íslensku samfélagi að það sé fínt að láta markaðinn sjá um að verðleggja ákveðna hluti en einhvern veginn nær það aldrei í gegn þegar við tölum um sjávarútveginn.

Það var aðeins komið inn á það hér áðan af hæstv. ráðherra að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Mig langaði kannski að spyrja hvort hann sé einlæglega þeirrar skoðunar, hafandi fylgst með umræðum um sjávarútvegsmál, um veiðigjöldin, lesið niðurstöður fjölmargra skoðanakannana sem gerðar hafa verið á þjóðarviljanum, að þjóðin upplifi það þannig að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar þegar við erum áratug eftir áratug í stríði um að eðlilegt gjald sé greitt fyrir afnotin.

Ég átta mig á því að menn eru búnir að stofna enn eina nefndina um sjávarútvegsmál og ekki í fyrsta skipti sem það er gert. En hvert er mat hæstv. ráðherra og VG, flokksins alls, á því hvort ekki sé svigrúm fyrir útgerðina að borga mun hærra gjald en gert er í dag, hvort sem það yrði þá gert í gegnum beint markaðsgjald, í gegnum uppboð eða þá bara með því að halda lífi í þessu veiðigjaldafyrirkomulagi sem að mörgu leyti er gengið sér til húðar? Við styðjum auðvitað að veiðigjöldin, ef menn ætla að hafa þau, séu hærri en þau eru. En við þurfum að komast út úr því kerfi til að verðleggja þessi gæði með öðrum hætti en gert er.