152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það að við erum að mörgu leyti með ósköp lítið bákn. Af því að hér hefur verið talað um krónu og evru og Evrópusamstarf þá vil ég bara benda á það gríðarlega bákn sem það kallar á að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli. Og eins þegar við ræðum innleiðingu á gerðum frá Evrópusambandinu. Þar erum við að taka við reglum án þess að hafa í raun neitt um það almennilega að segja hvernig þær eru útfærðar og hvernig þær verða til. Við eigum ósköp takmarkaða aðild að því ágæta bákni sem Evrópusambandið er. Talandi um bákn. Ætli eitthvert annað þjóðþing í Evrópu myndi sætta sig við að það sé netlaust heilu og hálfu dagana? Nei, þetta er bara eitt dæmi af mörgum. Hægri menn tala alltaf eins og það sé allt að blása svo mikið út og að það sé allt of mikil yfirbygging. En oft er það einmitt mín upplifun að ríkisstofnanir og stjórnkerfið sé bara alls ekki nógu vel fjármagnað. En höldum okkur kannski við efni máls hér. Nú erum við oft að afgreiða á hundavaði á færibandi gerðir vegna Evrópusamstarfsins sem við eigum aðild að og það er ekki alltaf skýrt hvað af því sem kemur fram í frumvörpunum er eitthvað sem leiðir óhjákvæmilega af gerðunum og hvað ekki, (Forseti hringir.) hvað það er sem við höfum í rauninni sjálfdæmi um. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef hann lítur yfir greinargerð þessa frumvarps, sem ég sé og heyri að hann hefur lesið og rýnt vel, hvað finnst honum um þetta? Er það skýrt í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) sem við erum að ræða hér í dag hvað það er sem ráðuneytið og við hér á Alþingi höfum sjálfdæmi um (Forseti hringir.) og hvað það er sem leiðir óhjákvæmilega af gerðunum sem er verið að innleiða?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma sem er takmarkaður í andsvörum.)