152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[17:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þessi tilvísun í málatilbúnað ESA í kringum Icesave ekki endilega halda vatni því að þá erum við að tala um tiltekið afmarkað tilvik en hér er verið að ræða almennan grundvöll þessa reksturs. Þá er ekki hægt að hengja sig í nákvæmlega það hvernig rök voru færð fyrir málinu á sínum tíma heldur finnst mér að ráðuneytið hefði mátt taka Icesave-gleraugun niður og líta á þetta almennari augum.

En mig langar aftur að nefna dagsektaákvæðið vegna þess að ég held að það skipti rosalega miklu máli, ekki alveg óháð rekstrarformi TIF: Hver var vandinn í hruninu? Var það ekki einmitt það að stofnanir stóðu ekki skil á réttum upplýsingum? Var það ekki einmitt það að stjórnvöld voru með leppinn fyrir báðum augum og vissu ekkert hvert þau voru að fara í fjármálakerfinu? Ég held að (Forseti hringir.) ef einhverju ætti að breyta í þessu frumvarpi væri það akkúrat það að setja inn einhver skýrari þvingunarúrræði (Forseti hringir.) gagnvart þeim aðilum sem þetta kerfi á að ná utan um vegna þess að þetta kerfi er til fyrir almenninginn (Forseti hringir.) sem brenndi sig einmitt í hruninu.