152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[17:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem ég er pínulítið sammála. Nú er ég lögfræðingur sjálf og það er alltaf mikið vandræðamál þegar löggjafinn treystir því að ummæli í greinargerð með máli bæti upp fyrir göt eða annað eða bara einhver allt önnur fyrirmæli sem koma síðan fram í lagatextanum sjálfum, af því það er nú þannig í okkar kerfi að það er lagatextinn sem gildir. Hitt er bara til nánari skýringar, ekki til að bæta við reglum eða fylla upp í göt eða annað. Þetta vekur upp áhyggjur hjá mér, ekki síst vegna þess að það var annað atriði sem var nefnt í umsögn TIF um að það þyrfti að koma fram í lagaákvæðinu ákveðnir þættir, og þá er ég er að tala um fyrstu athugasemd TIF. Viðbrögð ráðuneytisins við þeim athugasemdum þar sem er óskað eftir tilgreiningu í lagaákvæðinu eru einmitt að bæta við skýringartextann í greinargerð. (Forseti hringir.) Ég get sagt sem lögfræðingur að þetta er sannarlega ekki nóg, (Forseti hringir.) þannig að ég ítreka spurningu mína til hv. þingmanns: Telur hann lagatextann eins og hann er duga til?