152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[19:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns. Ég er nú bara enn þá að reyna einhvern veginn að ná utan um þetta. Mér brá hálfpartinn hérna áðan að heyra að ráðherra treysti sér ekki til þess að fullyrða hér og lofa því að þetta fjármagn yrði veitt á kjörtímabilinu. Það er svo ofboðslega skýrt í lögum að það áttu að vera fjármagnaðir 172 samningar á þessu ári. Og að ríkisstjórnin sé í alvörunni — að þau séu ekki búin að koma sér saman um eða að ráðherra treysti sér ekki til að gefa fyrirheit um þetta, mér finnst það eitthvað svo — ég veit það bara ekki. Auðvitað snýst þetta bara um forgangsröðun. Peningarnir eru til. Við erum að samþykkja fjárheimildir í hitt og þetta hér sem er miklu stærra en snýst um eitthvað miklu léttvægara en það sem við erum að ræða hérna í dag. Það sem við erum að ræða í dag snýst um frelsi fólks og rétt þess til að lifa sómasamlegu lífi. Þetta er hverrar einustu krónu virði. Ég vona bara að ráðherra og ríkisstjórnin sjái að sér og ég vona að þessi fjármálaáætlun, sem hefur komið hérna fram og verið rædd undanfarna daga, sé bara eitthvert aprílgabb því að þetta er alveg svívirðilegt.