152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[20:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Sannarlega er hughreystandi að heyra að hann hafi trúað því að þetta samráð hafi á einhvern hátt átt sér stað í gegnum Öryrkjabandalagið og sömuleiðis að hv. þingmaður muni, í gegnum sína vinnu í velferðarnefnd, tryggja að haft verði samráð við NPA-miðstöðina. Mér finnst mjög líklegt að það verði mjög vel þegið og ég er mjög þakklát fyrir veru hv. þingmanns í þeirri nefnd. Það er annar varnagli sem ég myndi vilja slá við þetta samráð og bið hv. þingmann líka að hafa augu og eyru opin fyrir þegar áframhaldandi samráð á sér stað í nefndinni. Stundum er talað um að samráð hafi átt sér stað, að einhver samvinna hafi verið en svo kemur ekkert endilega fram hvað hafi komið út úr því samráði, hvort það samráð þýði að allir hafi verið sáttir við niðurstöðuna. Það kemur í rauninni ekki fram. Það kemur kannski enn síður fram þegar mál eru unnin eins og þetta mál sem er unnið í einhverjum hópi. Út úr þeirri vinnu kom einhver afurð sem fór að þessu sinni ekki í samráðsgáttina vegna þess að „það voru nú allir með í þessu“. En það gerir að verkum að við sem erum að skoða þetta utan frá, og erum að reyna að kynna okkur málin og ganga úr skugga um að vinnubrögðin séu öll til fyrirmyndar, sjáum í raun ekki sérstaklega afstöðu og sýn hvers og eins þeirra aðila sem þó sátu þarna við borðið. Við vitum ekkert hvað fór fram á þeim fundum og hvað gekk á þar.

Ég vil því þakka hv. þingmanni fyrir störf sín í velferðarnefnd og hvetja hann til að tryggja að samráðið leiði til þess að það sé raunverulega hlustað.