152. löggjafarþing — 66. fundur,  8. apr. 2022.

veiting ríkisborgararéttar.

628. mál
[12:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hef lagt það í vana minn að koma þessu ferli til varnar þegar mig grunar að það verði gagnrýnt og þess vegna kem ég hingað upp. Það er nú svo að í flestum ríkjum er einhvers konar geðþóttavald til að veita ríkisborgararétt, og það er rétt að þetta er geðþóttavald. Eftir að hafa setið í undirnefnd um veitingu ríkisborgararéttar veit ég að mikil vinna fer í að meta og ræða umsóknirnar og færri komast að en vilja. Ég vil líka halda því til haga að það er á forræði þingsins að veita ríkisborgararétt. Það er þingið sem hefur ákveðið að fela stjórnsýslustofnun að sinna stærstum hluta þessara umsókna. Þetta ferli sætir árás frá framkvæmdarvaldinu. Um leið og ég óska öllum nýjum ríkisborgurum til hamingju óska ég okkur hér í þessum sal líka heilla í að takast á við og standa vörð um það hlutverk sem þingið hefur og mun ekki og á ekki að láta frá sér.