152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

fjármálamarkaðir.

532. mál
[12:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði. Frumvarpið er á þskj. 760 og er 532. mál. Það felur í sér innleiðingu sex Evrópugerða á fjármálamarkaði. Um er að ræða þrjár gerðir Evrópuþingsins og ráðsins sem breyta svokölluðum móðurgerðum og þrjár framseldar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar sem breyta framseldri reglugerð Evrópusambandsins.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Þær felast í því að gildissvið reglna um hámörk á stöður er þrengt með þeim hætti að það nái aðeins til landbúnaðarhrávöruafleiðna og veigamikilla og mikilvægra hrávöruafleiðna sem eru í viðskiptum á viðskiptavettvangi og OTC-samninga sem hafa sömu efnahagslegu áhrif. Í dag tekur hámarkið til hrávöruafleiðna almennt. Markmiðið með þessum hámörkum er annars vegar að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og hins vegar að styðja við eðlilega verðmyndun og uppgjörsskilyrði, þar með talið með því að koma í veg fyrir stöður sem valdið geta markaðsröskun. Til upplýsinga er vert að nefna að hámörkin taka almennt ekki til viðskipta fyrirtækja sem taka slíkar stöður til að draga úr áhættu í rekstri.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021, og lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020. Með breytingunum er dregið úr ýmsum formkröfum til vaxtarmarkaða og þar af leiðandi kostnaði við slíka skráningu á sama tíma og gætt er að heilleika markaðarins og fjárfestavernd. Meðal annars er dregið úr slíkum kröfum til fyrirtækja sem skrá fjármálagerninga á vaxtarmarkaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, svo sem hvað varðar innherjalista og útboðslýsingar.

Í þriðja lagi eru lagðar til smávægilegar breytingar á ákvæðum laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, og laga um lánshæfismatsfyrirtæki, nr. 50/2017, hvað varðar upplýsingagjöf lögbærra yfirvalda — hér á landi er það Seðlabanki Íslands — til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar.

Í fjórða og síðasta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um yfirtökur, nr. 108/2007. Breytingarnar felast í því að fella brott nokkur ákvæði laganna sem ekki eiga lengur við.

Hvað mat á áhrifum þessa frumvarps varðar þá er ekki talið að breytingar á hámörkum á stöður hafi mikil áhrif, enda eru viðskipti með hrávöruafleiður ekki umfangsmikil hér á landi. En vonir standa til að með samþykkt frumvarpsins verði skráning fjármálagerninga á svokallaðan vaxtarmarkað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki einfaldari og kostnaðarminni. Það leiðir vonandi til aukinna viðskipta á markaði og betri seljanleika þeirra fjármálagerninga sem útgefnir eru af litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Vert er að nefna að í september síðastliðnum var tilkynnt að Nasdaq First North markaðurinn hér á landi hefði hlotið slíka skráningu, þ.e. sem vaxtarmarkaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ekki eru fyrirséð nein áhrif vegna frumvarpsins á ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.