152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

fjármálamarkaðir.

532. mál
[12:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssyni fyrir framsöguna í þessu máli. Í frumvarpinu er snert á mörgum hlutum og ég ætlaði nú helst að tala bara um einn þeirra, sem er það sem fjallað er um í III. kafla frumvarpsins sem fjallar um vaxtamarkaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja. En áður en ég geri það langar mig einfaldlega að nefna að þó svo að hér sé löng og kannski frekar flókin lesning af alls konar litlum breytingum á eftirlitshlutverki og því hvað má og hvað má ekki þá megum við ekki gleyma því af hverju þessar breytingar koma fram. Flestar þeirra eru gerðar til þess að auka gagnsæi á mörkuðum en líka að auðvelda eftirlit og setja fram skýrari kröfur á fjármálastofnanir um það hvernig viðskipti eigi að fara fram á markaði, nokkuð sem við þurfum svo sannarlega að gera. Við sáum hvað gerðist þegar þær kröfur voru ekki eins stífar í kringum hrunið og í aðdraganda þess. Það er því mikilvægt að við innleiðum þessar breytingar í lög svo hægt sé að tryggja virkt eftirlit og betri neytendavernd á þessum markaði.

Mig langaði hins vegar að tala örstutt um þennan vaxtamarkað lítilla og meðalstórra fyrirtækja, enda er alltaf gaman að hugsa út í það að það sem ESB kallar lítil fyrirtæki eru meðalstór á íslenskan mælikvarða og þau sem þeir kalla meðalstór fyrirtæki eru frekar stór á okkar mælikvarða. Það er þannig, þegar kemur að nýsköpun, að það er mikilvægt að hafa mismunandi leiðir fyrir fyrirtæki til þess að sækja fjármagn. Sum fyrirtæki, sér í lagi kannski tæknifyrirtæki, velja að sækja fjármagn til svokallaðra vísisjóða á meðan önnur fyrirtæki vilja frekar fara markaðsleiðina, sem er það sem verið er að innleiða hér í III. kafla frumvarpsins.

Hæstv. ráðherra nefndi hér áðan First North markaðinn, sem er einmitt dæmi um slíkan markað, en á honum eru í dag sex íslensk fyrirtæki, sum ný, sum með áratugalanga sögu. Þarna eru fyrirtæki eins og Hampiðjan, Kaldalón, Klappir grænar lausnir, Play, Sláturfélag Suðurlands og Solid Clouds. Það er athyglisvert að hugsa til þess að þarna séu sex fyrirtæki því að ekki eru nema örfá ár síðan við áttum ekki nema 12 fyrirtæki á markaði á Íslandi, reyndar eru þau komin upp í 20 núna, m.a. vegna Íslandsbanka. Þarna eru sex lítil og meðalstór fyrirtæki að ná sér í fjármagn á svipaðan hátt í gegnum markað.

Það er auðvitað flókið að fara á markað og við getum eflaust fengið sögur frá hæstv. ráðherra og Bankasýslunni um það hversu flókið það var að fara í söluferli á stórum banka, eða fyrirtæki, eins og Íslandsbanka. Það er einmitt það sem verið er að reyna að passa í þessum reglum og reglugerðum í kringum vaxtamarkaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þ.e. að þau þurfi ekki að fara í að búa til 500 blaðsíðna skjal, útboðsskjal, sem lýsir öllu sem þarf að lýsa í jafn flóknu ferli. Þau fá því ákveðinn afslátt á því hvað þarf að leggja fram en þau þurfa samt sem áður að vera með nægilega vönduð gögn til þess að fjárfestar, hvort sem um er að ræða almenning eða fagfjárfesta, sem er orðið sem allir kunna eftir þessa viku, sem fá að taka þátt í að kaupa í slíkum fyrirtækjum. Þetta dregur því úr formkröfunum fyrir fyrirtækin og líka úr kostnaðinum. Það er nefnilega dýrt að skrá sig á markað en þarna er verið að draga úr þeim kostnaði. Á sama tíma eru gerðar ákveðnar kröfur til þessara fyrirtækja, að það sé seljanleiki á hlutabréfunum og að raunverulega sé hægt að stunda viðskipti með þessi smáu fyrirtæki. Það er vonandi að fleiri smá og miðlungsstór fyrirtæki nýti sér þessa leið, sér í lagi vegna þess að markaðir innan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og First North markaðurinn, gera það kleift að sækja fjármagn, ekki bara hér innan lands, sem því miður er takmarkað, heldur líka út fyrir landsteinana hvert sem er á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þó svo að hér sé löng og frekar flókin setning, um að verið sé að innleiða tilskipun númer þetta og hitt o.s.frv. frá ESB, hefur þessi innleiðing, og það að þetta frumvarp fari í gegn, vonandi þá afleiðingu að nýsköpun í landinu haldi áfram að vaxa og dafna og aukin tækifæri skapist til þess að skrá sig á markað sem er enn ein leiðin til að ná í fjármagn til að tryggja að nýsköpun blómstri hér á landi.