152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[12:55]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarninn er auðvitað sá að löggjafinn veiti ekki leið í kringum skylduna til að framkvæma umhverfismat. Við erum að tala um starfsemi sem er í góðri trú, enda búin að fara í gegnum ferlið og fá grænt ljós, og hér er skýrt kveðið á um að almenningur hafi aðkomu að ákvörðun um leyfi til bráðabirgða. En aðkoma almennings er líka styrkt með því að hægt er að kæra niðurstöðu Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar og almenningi gefst líka kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaða ákvörðun. Með þessum breytingum erum við líka að taka mið af dómafordæmum ESB sem hafa komið í þessa vegu og bregðast við þessum athugasemdum.