152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:10]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi umhverfismatsins og með þessu frumvarpi viljum við tryggja að það verði vandað. Ég vil leiðrétta að það er ekki þannig að þetta leyfi sé veitt áður en umhverfismat hefur farið fram heldur einmitt þegar umhverfismat hefur farið fram og leyfishafi búinn að fá grænt ljós. En ef það kemur á daginn að það eru gallar í matinu er hægt að beita þessari heimild, sem er hvatning til að vanda til verka, enda erum við að tala um að leyfishafi sé búinn að fá samþykkt mat og fái síðan leyfi. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu sem við þurfum að vanda líka af því að við skiljum öll mikilvægi umhverfismatsins. Hafi síðan leyfi fyrir framkvæmd sem fellur undir lögin verið fellt úr gildi sökum einhverja annmarka á umhverfismatinu sem hefur farið fram og komið grænt ljós á, þá getur Umhverfisstofnun, að beiðni rekstraraðila, veitt bráðabirgðaheimild fyrir framkvæmdinni í samræmi við þessi skilyrði ef ríkar ástæður mæla með því. En það eru mjög ströng skilyrði fyrir því að koma af stað bráðabirgðaferli og það er ekki þannig að þetta sé einhver óskaleið fyrir leyfishafa, heldur þvert á móti. Þetta er lykilatriði og eitt af markmiðum frumvarpsins er að tryggja að löggjöfin veiti ekki leið fram hjá þessari mikilvægu skyldu til að framkvæma umhverfismatið. Hún er mikilvæg og það er lykilatriði í frumvarpinu að tryggja að löggjöfin veiti ekki leið fram hjá henni. ESA taldi að skilja mætti löggjöfina þannig en þá var framkvæmdin í samræmi við sjónarmið ESA. Athugasemdir ESA vörðuðu kannski fyrst og fremst texta laganna. Síðan er innbyggt í þetta meðalhóf að ef mikið er í húfi, t.d. starfsemi hafin, er rekstraraðila veitt færi á að berja í brestina í stað þess að sæta (Forseti hringir.) eingöngu sviptingu og tapi mikilla verðmæta. Þannig að hér er verið að ýta undir mikilvægi umhverfismatsins og tryggja að vandað sé til verka.