152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ástæðan fyrir því að við verðum að hafa varann á okkur í þessum málum sé bara sú saga sem við eigum, sérstaklega þegar kemur að mati á umhverfisáhrifum. Lög um mat á umhverfisáhrifum halda allt of veikt. Það er engin bremsa gagnvart slæmum framkvæmdum, þeim er flaggað sem slæmum en þær geta samt rúllað áfram. Þetta er veruleiki sem var settur inn í lög sem varanleg hjáleið í rauninni í kjölfarið á bráðabirgðaútfærslu í kringum eina tiltekna framkvæmd sem heitir Kárahnjúkavirkjun. Ég held að bara þess vegna ættum við anda dálítið vel í kviðinn og sjá hvort við viljum endilega festa til framtíðar svona ákvæði.

Ráðherrann kom upp í andsvar áðan og lagði áherslu á að þetta mál snerist ekki um að gera umhverfismat óþarft. Það gerir það samt pínulítið vegna þess að samkvæmt frumvarpinu þarf jú umhverfismat að liggja fyrir en framkvæmdin má fara af stað þó að það séu ágallar á matinu. Þá segi ég, frú forseti: Það er ekki umhverfismat. Það er ekki fullþroskað umhverfismat ef það eru ágallar á því. Á grundvelli gallaðs umhverfismats á ekki að fara af stað í framkvæmd. Eða er það ekki eitthvert prinsipp sem við getum hrúgað okkur aðeins utan um?

Þetta er svo stuttur tími, frú forseti, en mig langaði að ræða aðeins við ráðherrann um það hvað þessi málatilbúnaður allur segir um aðkomu almennings (Forseti hringir.) að ákvarðanatöku á umhverfissviðinu, því að Landvernd og hin samtökin (Forseti hringir.) vísuðu þessu máli náttúrlega til Árósasamningsins líka. Það finnst mér ekki minna mál.