152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, að rifja upp hvernig var þegar bráðabirgðaákvæðið var sett í lög. Það var svolítill hasar, ég held að það megi alveg segja það, eins og alltaf er þegar lög eru sett á einum einasta degi. Ég var einmitt á þessum tíma í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og skal bara játa upp á mig þann vitleysingshátt að hafa treyst því þegar umhverfisráðherra sannfærði okkur um að það væri alveg passað upp á hagsmuni almennings. Það væri alveg passað upp á sjónarmið náttúruverndar og umhverfisverndar. Eftir á að hyggja var það kannski aðeins of bláeygt. En á hinn bóginn þá erum við kannski með lægri þröskuld þegar kemur að bráðabirgðalausn á einhverjum vanda sem hefur verið keyrður upp í það að þykja vera brýn þörf sem ríkar ástæður séu til að bregðast við. En staðan er allt önnur þegar við erum að setja almenn lög eins og hér er lagt upp með, og almenn lög sem þurfa ekkert endilega bara ná utan um þessa tegund af starfsemi, þetta gæti væntanlega lekið yfir í alls konar starfsemi. Þá erum við komin á þann stað að vera farin að teikna upp mynstur. Utanríkisráðherra í fyrra varpaði palestínskum flóttamönnum á götuna en hafði ekki fyrir því lagaheimild. Það verður brugðist við því með því að leggja fram frumvarp um að festa þá lagaheimild í sessi. Á heilbrigðisstofnunum er nauðung beitt á sjúklinga í trássi við lög og mannréttindaskuldbindingar. Heilbrigðisráðherra ætlaði að festa þá heimild í lög. (Forseti hringir.) Og hér er búið að svína á aðkomu almennings að ákvörðunum í umhverfismálum, (Forseti hringir.) það á bara að festa það svínarí í lög. Alltaf farið í vitlausa átt, ekki brugðist við gallanum með því að gera hlutina betri heldur (Forseti hringir.) með því að gera gallann löglegan.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)

.