152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tel að nú sé komin upp sú staða hér á Alþingi að frú forseti eigi að gera hlé á þessum þingfundi til þess að formenn flokka á Alþingi geti sest niður og tekið í sameiningu ákvörðun um að fram fari fagleg rannsókn á sölunni á Íslandsbanka. Við þurfum að komast að sameiginlegri ákvörðun um það að rannsóknarnefnd Alþingis verði skipuð. Rétt í þessu var að birtast frétt á Kjarnanum, þar sem Sigríður Benediktsdóttir, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, segir að sala á hlutum í Íslandsbanka til lítilla fjárfesta í lokuðu útboði brjóti í bága við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hún segir:

„Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.“

Frú forseti. Ég geri þá kröfu að við tökum núna hlé á þingfundi til þess að formenn flokka sem eiga sæti á Alþingi geti sest niður og komist að samkomulagi um að hér dugi ekkert annað en rannsóknarnefnd Alþingis til að fara ofan í saumana á þessu. Þetta er spilling, frú forseti. Það lítur út fyrir að hér hafi lög verið brotin. Við verðum að taka þetta alvarlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)