152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er síðasti dagur fyrir páskafrí, hálfur mánuður þangað til við komum aftur. Við getum ekki skilið við þetta mál eins og það er statt í dag. Við þurfum að nota daginn í dag til að komast að samkomulagi um það að hér verði skipuð rannsóknarnefnd Alþingis sem fer ofan í saumana á þessu máli. Óánægjan er af mörgum toga nefnilega og grunsemdirnar. Fagfólk er bit í rauninni yfir þeim brotum sem virðast hafa verið framin. Almenningi er auðvitað misboðið, bara vegna þess að það kallar fram sárar endurminningar, og á þessum tveimur dögum er atburðarásin farin að minna mig á þegar maður er að flytja. Maður heldur alltaf að maður sé að fara síðustu ferðina að ná í síðasta hlutinn í íbúðinni en það er alltaf einn eftir. Ég veit ekki hvar þetta endar. (Forseti hringir.)

Herra forseti. — Frú forseti meira að segja. Ég bið þig að beita þér fyrir því að það verði kallaður saman fundur þingflokksformanna og formanna, hverra sem er, bara til að komast að samkomulagi um framhaldið.

(Forseti (DME): Frú forseti biður hv. þingmenn enn og aftur um að virða ræðutímann.)