152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Þegar við erum í vafa um hversu alvarlegt þetta mál er þá hljótum við — það getur ekki verið vafi til staðar lengur. Það birtist hér frétt eftir frétt sem bendir okkur á hversu alvarlegt þetta mál er. Það er rétta leiðin að setja saman rannsóknarnefnd sem heyrir undir Alþingi og það sýnir líka almenningi í landinu að við tökum þessu alvarlega. Það skapar trúverðugleika í kringum allt ferlið. Ég tek því algerlega undir þá beiðni um að við gerum hlé á þessum þingfundi og að þingflokksformenn fundi og finni lausn á þessu máli, því að forsendurnar fyrir því að fá ríkisendurskoðanda til að skoða þetta mál fyrst einhverra hluta vegna, sem meikar engan sens, eru eiginlega brostnar. (Forseti hringir.) Við vitum að þetta er alvarlegt mál. Við sjáum að það fór (Forseti hringir.) ótrúlega margt úrskeiðis og við þurfum að rannsaka þetta mál algerlega í kjölinn. (Forseti hringir.) Þannig að gerum hlé, forseti, og finnum sameiginlega lausn á þessu (Forseti hringir.) til að efla traust á þessu ferli öllu saman.