152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Maður þarf að anda ofan í kviðinn þessa dagana til að halda ró sinni. Staðan er þannig. Alveg frá því að þetta gerðist, 22. mars, hefur minni hlutinn hér á þinginu gert athugasemdir við málið og óskað eftir svörum. Hverjir fengu að kaupa og hverjir fengu ekki að kaupa? Hver var hlutur hvers og eins, hverjir voru skornir niður, hverjir komust ekki að borðinu, í hverja var hringt? Þessar spurningar hafa legið í loftinu á hverjum einasta degi frá 22. mars. Svo loksins þegar menn átta sig á því að það er farið að leka út hverjir fengu að kaupa er listinn birtur. Og þá kemur þessi skelfilegi sannleikur í ljós. Þetta var í engu samræmi við það sem lagt var upp með í byrjun.

Við sitjum uppi með það að við erum rúin trausti hér á þinginu. Þegar sérfræðingar úti í bæ eru farnir að segja að lög hafa verið brotin verður forseti þingsins að taka það alvarlega og stöðva þennan fund. Það þarf að kalla þetta fólk til þannig að við fáum þessa rannsóknarnefnd sem verið er að biðja um.