152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég virði það mjög að hv. þm. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, sem situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi, komi hér upp og lýsi sinni skoðun. Mér finnst það gott, mér finnst það virðingarvert. Það felst í því sá metnaður að vilja gera vel og hafa allt uppi á borðum. Það er hins vegar þannig með þessa leið, og ég veit að hv. þingmaður er búin að hlusta á okkur hér í dag, að í því felst engan veginn vantraust á Ríkisendurskoðun. Það er bara það að verkfærin sem Ríkisendurskoðun hefur til þess að draga allt fram, hafa allt uppi á borðum, eru ekki þau sömu og rannsóknarnefnd á vegum þingsins hefði. Ef við höfum raunverulegan metnað, ríkisstjórnarflokkarnir, til þess einmitt að fá hina réttu mynd af þessu, til þess líka, svo ég undirstriki það aftur, að við getum haldið áfram á traustum grunni við að m.a. selja fleiri hluti ríkisins í Íslandsbanka, þá verðum við að fara þessa leið, til að fólkið í landinu öðlist tiltrú á ferlinu. Það er það sem er svo mikilvægt að gerist og þess vegna erum við að leggja þetta til.