152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var gaman að sjá stjórnarliða loksins mæta hér í sal þangað til ég heyrði hvað þau höfðu fram að færa — mjög svekkjandi miðað við hvað þetta var skemmtilegt í gær. Mér leið eins og hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni þegar ég fór heim úr vinnunni í gær, mér varð að vísu dálítið kalt á puttunum að hjóla meðfram Sæbrautinni heim, en mér var hlýtt í hjartanu af því að ég hafði upplifað meiri samstöðu hér en við eigum að venjast. Þá höfðu fulltrúar allra flokka tjáð sig hér í pontu, ekki um einhverja smjörklípu um úttekt Ríkisendurskoðunar heldur um þá tillögu að setja í gang rannsóknarnefnd Alþingis um útboðið á Íslandsbanka. Allir tjá sig jákvætt um þetta. Sumir sögðu: Jú, kannski væri betra að Ríkisendurskoðun færi yfir þetta, en ef þið endilega viljið, „why not“? Svo bara vöknuðum við upp við vondan draum í morgun og þá var pabbi gamli búinn að tukta þau öll til og þau eru eins og snúið hundsroð. Þau mæta svo bara hér upp í pontu og eru með einhvern derring.