152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var árið 2010 sem ég las allar blaðsíðurnar í rannsóknarskýrslu Alþingis um hrun bankanna og þegar ég settist í stól fjármálaráðherra árið 2012 lagði ég á það áherslu að ég fengi að mæla fyrir frumvarpi sem setti umgjörð og tryggði gagnsæi og traust um sölu hluta ríkisins í bönkunum ef til þess kæmi. Við áttum reyndar bara 5% í Íslandsbanka á þessum tíma, 15% í Arion banka og 81% í Landsbanka og það stóð ekki til að selja 70% af þeim banka. Síðan gerist það 2015 að við fáum bankakerfið í fangið eftir stöðugleikaframlögin. Núna, frú forseti, erum við með minni hluta. Við erum minnihlutaeigendur Íslandsbanka eftir þessa sölu. (Forseti hringir.) Og eins og fram hefur komið hér í dag virðist svo vera (Forseti hringir.) að þau lög sem voru samþykkt hér árið 2012, sem áttu að tryggja að leikar (Forseti hringir.) gætu ekki endurtekið sig við fyrri einkavæðingu bankanna upp úr aldamótum, hafi verið (Forseti hringir.) brotin. Það er mjög alvarlegt mál, frú forseti, og við verðum (Forseti hringir.) að rannsaka það og standa saman um það.

(Forseti (DME): Hv. þingmenn. Ef það skyldi hafa gleymst þá er ræðutími undir liðnum um fundarstjórn forseta ein mínúta)