152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:10]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það var mjög áhugavert að heyra í hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hér áðan. Það er bara nákvæmlega svona sem atburðarásin hefur verið, nákvæmlega eftir handbók: Hvernig fer maður að við að þagga niður mál, kæla niður áhrifin af þeim eða afvegaleiða allt? Það hefur ekkert farið fram hjá neinum að stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafa verið ósammála um margt þegar kemur að þingstörfum og ýmsum málum, hugsjónum, og því hvert skuli stefna með þetta samfélag. En það sem er í gangi hér er svo alvarlegt vegna þess að við erum að tala um sölu á svo miklum ríkiseigum og við erum að tala um að áform séu um að selja meira. Ég ætla að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það ekki koma til greina að halda áfram með sölu á Íslandsbanka eða Landsbanka á meðan ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli.

Ég árétta það sem ég sagði hérna áðan: Ríkisendurskoðun er frábær aðili til að rannsaka afmarkaða þætti. Það er hins vegar ekki það sem hentar þessu máli hér. Við hljótum öll að sjá það og ég kalla eftir því (Forseti hringir.) að forseti þingsins, hv. þm. Birgir Ármannsson, komi hingað (Forseti hringir.) til að eiga samtal við okkur um hvort hann ætli að verða við ósk okkar um að gera (Forseti hringir.) smáhlé til þess að við getum farið betur yfir málin.