152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Áður en ég hef mál mitt langar mig að spyrja forseta hvort ráðherra sé ekki örugglega í húsi, ég hef ekkert séð hana hérna síðustu klukkutímana. Er hægt kanna það og jafnvel fá hana í salinn?

(Forseti (OH): Forseti lætur athuga það.)

Hér ræðum við svokallaðan bandorm um bráðabirgðaráðstafanir sem snertir þrjá lagabálka, hollustuháttalögin, fiskeldislög og lög um mat á umhverfisáhrifum. Þetta mál kemur ekki til af góðu eins og vill oft verða. Lögum um fiskeldi var breytt árið 2018 þannig að ráðherra gæti veitt leyfi til bráðabirgða í tíu mánuði sem mætti síðan aftur framlengja um tíu mánuði til viðbótar þó að ekki væri til staðar gilt umhverfismat. Þetta var vegna framkvæmda sem áttu sér stað í tengslum við stækkun eldri starfsleyfa á Vestfjörðum í sjókvíaeldi þar. Sú stækkun var kærð og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að það miklir ágallar hefðu verið á umhverfismatinu að það var fellt úr gildi. Þó að framkvæmdaraðilar hefðu mátt segja sér að þessir gallar væru mögulega til staðar, sér í lagi þar sem kæran var farin af stað, fóru viðkomandi af stað í framkvæmdirnar og það bjó til mikinn þrýsting á stjórnmálamenn að bregðast við. Það verður að segjast að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er því miður allt of sjaldan í liði með náttúrunni, bara eins og stór hluti af stjórnkerfi Íslands. Framkvæmdaröflin fá oft meiri hljómgrunn en önnur öfl. Þarna stóð úrskurðarnefndin með náttúrunni, með varúðarreglunni sem kallaði á að þetta mál yrði skoðað betur.

Ég held að við séum öll sammála, hvað sem okkur finnst um sjókvíaeldi, að sá rekstur er mikið inngrip í lífríkið þar sem hann er settur niður. Ég held að enginn talsmaður sjókvíaeldis geti haldið öðru fram eða látið sér einu sinni detta í hug að halda öðru fram. Viðbrögðin við þessu öllu voru sem sagt að settur var þrýstingur á stjórnmálin vegna þess að undir væru miklir fjárhagslegir hagsmunir, sögðu rekstraraðilar, þar sem þeir hefðu sett framkvæmdina af stað og hluti af því var að fara að ala seiði til að sleppa út í þær kvíar sem átti að stækka þarna fyrir og ef þessu þyrfti að slátra án þess að hægt væri að rækta það til sláturstærðar þá yrðu rekstraraðilarnir af mikilli fjárfestingu.

Segjum að þarna hafi verið tveir möguleikar í stöðunni. Annar möguleikinn hefði verið að vera stranga foreldrið. Stjórnvöld hefðu sagt við rekstraraðilana: Því miður, svona eru lögin okkar. Þið hefðuð getað sagt ykkur að svona gæti farið og hefðuð kannski þurft að vera með belti og axlabönd varðandi þetta umhverfismat. Þið vitið að þetta er umdeildur iðnaður og þið lærið kannski af þessu að fara ekki í mikla fjárfestingu þar sem ekki er hundrað prósent að þið megið fara af stað með framkvæmdina vegna þess að umhverfismatið kann að vera brogað. Þetta var leið hins stranga foreldris, en leiðin sem var valin var leið eftirgjafarinnar. Leiðin sem var valin var að segja: Já, eigum við ekki bara að leyfa þessu að slæda. En það er nú meira en að segja það að leyfa svona að slæda vegna þess að það var gert með því að setja lög sem heimiluðu þetta, setja lög sem voru svo sértæk að það var nánast bara hægt að benda á bandspottana og flotholtin sem þau næðu yfir, þar sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun var gefin heimild, sem ekki var áður í lögunum, til að veita framkvæmdastarfsleyfi þrátt fyrir ágalla á umhverfismati. Það vakti auðvitað ekki kátínu hjá þeim sem eru með náttúrunni í liði.

Nokkur samtök, þar á meðal. Landvernd, kvörtuðu undan þessari lagasetningu og leyfisveitingunum sem fylgdu. Þau sendu eina kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, eða ESA eins og við köllum hana, og hina kvörtunina sendi þau til skrifstofu Árósasamningsins sem fjallar um þátttöku almennings og náttúruverndarsamtaka í ákvarðanatöku varðandi ákvarðanir sem snerta náttúruna. Það var sem sagt 2018 sem þessi bolti fór að rúlla og í apríl 2020 kom bráðabirgðarúrskurður frá öðrum þessara aðila. ESA skilaði bráðabirgðaúrskurði í apríl 2020 og tók í grunninn undir allt sem Landvernd sagði. Í framhaldinu setti umhverfis- og auðlindaráðuneytið drög að frumvarpi í samráðsgáttina þar sem þó var ekki brugðist við því sem var í raun kjarnaathugasemd ESA um að gilt umhverfismat skuli fara fram áður en leyfi er veitt. Þetta er eitthvað sem ég held að við þurfum að skoða vel í nefndarvinnunni sem fram undan er, hvort það geti í alvöru kallast gilt umhverfismat að eiga eftir kæruleiðirnar sem geta leitt til ógildingar matsins, sérstaklega þegar við erum að tala um stærri framkvæmdir sem flokkast sem meiri háttar íhlutun í náttúruna. Það skiptir nefnilega engu máli, segir ESA, hvort um er að ræða bráðabirgðaákvæði eða bráðabirgðaleyfi eða leyfi til frambúðar. Það þarf að byggja á jafn styrkum grunni. Þessi leið sem var farin 2018, að segja: Auðvitað viljum við hafa hundrað prósent gilt umhverfismat undir varanlegum rekstri en við getum leyft þessu umhverfismati sem hefur verið ógilt að slæda fyrir tímabundna framkvæmd, er eitthvað sem ESA er bara ósammála.

Það sem var líka gert í þessum frumvarpsdrögum haustið 2020 var að vandinn var í raun stækkaður. Lagt er til að lögfesta þá praxís sem ESA er að skamma Ísland fyrir að hafa praktíserað í þessu tilviki. Lagt er til að lögfesta hana og lagt er til að breyta því þannig að bráðabirgðaleiðin sé ekki tíu mánuðir sem megi framlengja um tíu mánuði til viðbótar heldur 12 mánuðir sem megi framlengja til annarra 12 mánaða. Það er sem sagt allt í einu komið eitthvað sem heitir bráðabirgðaleyfi upp á tvö ár. Í ýmiss konar leyfisskyldum rekstri er það bara það sem heitir starfsleyfi. Þau þarf bara mjög oft að endurnýja á tveggja ára fresti.

Annað sem var gert sem stækkaði vandann var að almenningi, samkvæmt þessum frumvarpsdrögum, var bara gefin ein vika til að andmæla ákvörðunum yfirvalda um að veita bráðabirgðaleyfi. Og það sem er kannski stærsta vandamálið er að sú aðferðafræði sem var í þessum frumvarpsdrögum var færð yfir á annan rekstur þannig að það sem byrjaði sem klæðskerasniðnar lausnir fyrir afmarkaðan rekstur á Vestfjörðum, sem var í vanda í byrjun árs 2018, var allt í einu orðið að tillögu til varanlegrar lagabreytingar sem nær yfir allan rekstur sem hægt er að ná yfir með þeim lagaákvæðum sem hér eru. Þetta voru sem sagt viðbrögð stjórnvalda við bráðabirgðaúrskurði ESA sem barst á vormánuðum 2020. Endanlegur úrskurður ESA barst síðan nokkru seinna, í lok árs 2021. Þá er álitið harðara. Það er harðara vegna þess að íslensk stjórnvöld brutu ekki bara gegn reglum EES-samningsins eins og hafði komið fram í bráðabirgðaákvæðinu varðandi það t.d. að almenningur væri útilokaður frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og að almenningi væri gert ókleift að kæra þau og að brotin voru ákvæði um að gilt umhverfismat yrði að liggja fyrir þegar rekstrar- og starfsleyfi eru veitt. Þetta var allt saman bæði í bráðabirgðaáliti og í endanlegu áliti ESA. En það sem m.a. birtist þarna í samráðsgáttinni varð til þess að kynda enn meira undir ESA vegna þess að þar sýndu íslensk stjórnvöld á spilin, hvað þau ætluðu að gera. Það er einmitt það frumvarp sem við erum með í höndunum hér þar sem brugðist er við áfellisdómi ESA yfir lögum sem voru sett hér í salnum árið 2018 með því að ætla að festa þau lög varanlega í sessi með svona litlum breytingum.

Það er ekki svona sem við bregðumst við gagnrýni, að festa hana. Við þurfum að skoða vel í nefndarvinnunni hvort þetta sé yfir höfuð forsvaranlegt. Þó að það sé alveg hægt að skilja — hvað eigum við að segja, ekki force majeure en það náðist að sannfæra meiri hluta þingheims um að það væri mjög brýnt að setja þessi lög til bráðabirgða 2018. Það getur ekki verið jafn brýnt, og við hljótum að vera dálítið strangari á sönnunarkröfur stjórnvalda á nauðsyninni, þegar um er að ræða varanlega hjáleið hjá því regluverki sem til staðar er til að verja náttúru, samfélag og efnahag á ýmsum svæðum, vegna þess að mat á umhverfisáhrifum snýst um það. Ég man að í umræðunni 2018 varð sumum sem töldu sig vera að tala máli Vestfirðinga tíðrætt um að fólk sem vildi halda fast í mat á umhverfisáhrifum (Forseti hringir.) hefði eitthvað á móti því að Vestfirðir myndu vaxa og dafna. Því er öðru nær. (Forseti hringir.) Fólk sem vill sterkt mat á umhverfisáhrifum vill akkúrat að samfélög dafni um allt land og efnahagur þar á meðal.