152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns. Mér finnst það algerlega augljóst eftir að upplýsingar hafa komið fram, sérstaklega eftir að þingmenn úr svo gott sem öllum flokkum lýstu yfir stuðningi við að skipuð yrði óháð rannsóknarnefnd á vegum Alþingi, sem undirstrika enn frekar mikilvægi þess að slík rannsókn fari fram, nú síðast ummæli Sigríði Benediktsdóttur sem sjálf sat í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, um að lög hafi verið brotin í þessu söluferli.

Ég ætla aðeins að fá að lesa hérna upp úr lögunum, 3. gr.:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni.“

Í greinargerð frumvarpsins sem varð að þessum lögum segir:

„Gert er ráð fyrir að bjóða skuli eignarhlut til sölu í opnu söluferli. Nauðsynlegt er hins vegar að rökstyðja sérstaklega ef ekki stendur til að bjóða hlut til sölu með þeim hætti.“ (Forseti hringir.)

Hvernig var það rökstutt? Jú, m.a. með því að það þyrfti að finna hæfa fagfjárfesta, það þyrfti að finna langtímafjárfesta, stofnfjárfesta o.s.frv., (Forseti hringir.) að nú þegar væri búið að ná fram dreifðu eignarhaldi í fyrri fasa söluferlisins. Hvað gerist svo? (Forseti hringir.) Við vitum það. Traustið er farið.