152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég segi nú bara eins hv. formaður Samfylkingarinnar að við gætum alveg farið að flytja sömu ræðuna aftur og aftur, vegna þess að málið snýst um það eitt að á okkur verði hlustað og skipuð verði rannsóknarnefnd eins og um er beðið. Manni þykir það sérstakt að vera að lesa um það í fjölmiðlum, haft eftir stjórnarformanni Bankasýslunnar, að ekki sé hægt að girða fyrir viðskipti þeirra sem hafa fengið dóm eða eru til rannsóknar. Það er ekki hægt að girða fyrir það, það er rétt hjá honum að það sé ekki hægt að girða fyrir það á eftirmarkaði en að ekki sé ekki hægt að girða fyrir það í lokuðu útboði þar sem kaupendur eru handvaldir er mjög sérstakt, að þannig hafi verið haldið á málum að hver sem er gat bara hoppað þarna inn. En það var ekki hver sem er. Það voru hópar, meira að segja fjárfestingarfyrirtæki, sem fengu ekki að kaupa, sem fengu bara ekki boð, fullt af eignafólki hér sem fékk ekki boð. (Forseti hringir.) Staðan er þessi. Við verðum að fá þessa nefnd.