152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnst full ástæða til þess að halda þessari umræðu svolítið til streitu. Það er ekkert mál meira knýjandi af samfélagsmálum dagsins í dag til að ná einhverri sátt um en það sem við erum að ræða hér. Þetta voru 50 milljarðar sem voru seldir. Það stendur til að selja meira síðar og jafnvel annan banka til. Það að fara í það ferli allt saman er einfaldlega ekki hægt að gera á meðan við erum ekki búin að taka til eftir þessa sölu, sem nánast allir eru sammála um að hafi ekki heppnast vel. Ég fór hérna yfir ágætislista áðan, bara um þær athugasemdir sem hafa verið gerðar og margir þeirra sem tóku þátt í útboðinu gera athugasemdir á alveg ótrúlega mismunandi forsendum. Síðan fáum við þessi ummæli Sigríðar Benediktsdóttur, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis, hefur starfað hjá Seðlabankanum og er hagfræðingur hjá Yale. Ég ætla bara að segja það hér: Orð hennar um þetta mál hafa miklu meira vægi en öll þau orð sem fallið hafa í þessum ræðustól, bæði af hálfu stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Við verðum að gera hlé á þingfundi og koma þessum málum í farveg áður en við förum í páskafrí.