152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mér finnst nauðsynlegt að halda til haga að mikilvægur hluti í þessu máli sem verið er að vekja athygli á er hlutur þingsins í þessari sölu, eða svokallaður hlutur þingsins. Mér finnst mikilvægt að taka aðeins til varna þar af því að þingið hefur einungis fengið þetta mál til sín eftir að það var búið að taka ákvörðun um að það ætti að selja og það er sett þannig upp að það eigi að leita umsagnar Alþingis. Það er hluti af ferlinu, svona tékkbox sem þarf að fylla í. En þingið fékk einfaldlega of skamman tíma til að fara yfir málið með einhverjum alvöruhætti af því að það var búið að taka ákvörðun um að selja. Það var góður tími og þá varð að drífa í að klára þetta. Það var heimtað að þingið skilaði á ákveðnum tíma. Framkvæmdarvaldið heimtar að þingið klári á einhverjum tíma, sem er ekkert endilega sá tími sem þingið þarf til þess að geta klárað málið á faglegan hátt. Þannig að öll umræða um (Forseti hringir.) að þingið komi einhvern veginn að þessu máli er blekkingarleikur og ég vil vara við því (Forseti hringir.) að það sé einhvers konar samábyrgð sem þingið beri í þessu máli.