152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sporin hræða. Ég hef ekkert á móti ríkisendurskoðanda, ég vissi eiginlega ekki nafnið á honum fyrr en í dag og vissi ekki hann hefði hreinlega verið nýskipaður, en hann hefur ekki tól og tæki til að taka á þessu. Af hverju segi ég: Sporin hræða? Við skulum taka málið sem ég er búinn að margítreka hérna í pontu, málið sem tapaðist fyrir Hæstarétti varðandi búsetuskerðingarnar. Hver benti ríkisstjórninni á það í upphafi að þetta væri lögbrot löngu áður en það fór fyrir dóm? Umboðsmaður Alþingis. Í umboði okkar sagði hann: Þið eruð að brjóta lög. Hvað gerði ríkisstjórnin? Hunsaði það. Fór með það fyrir héraðsdóm. Héraðsdómur sagði: Þið eruð að brjóta lög á fátækasta fólkinu, fólki í sárafátækt. Hvað gerði ríkisstjórnin? Fór með málið fyrir Landsrétt. Landsréttur sagði, og staðfesti dóm héraðsdóms: Þið eruð að brjóta lög á fátækasta fólki landsins. Hvað gerði ríkisstjórnin? Fór með það fyrir Hæstarétt. Sporin hræða.