Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að það kemur á óvart að hlusta á þessi ofboðslegu vonbrigði hv. þingmanns á því að við viljum fara aðra leið. Ég átti ekki von á því að í röðum Viðreisnar yrðu miklir stuðningsmenn þess að halda áfram með Bankasýsluna og halda bara óbreyttu striki, gera þetta eins aftur væntanlega. Ég átti ekki von á að það kæmi úr Viðreisn. (ÞorbG: Þetta er útúrsnúningur.) Hver er með útúrsnúning? Þegar verið er að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að vilja (Gripið fram í.) þróa aðrar leiðir þá hlýtur maður að ganga … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) — Ef ég fengi frið. (Gripið fram í.) Þetta er fólkið sem var að segja að ég væri svo pirraður, það stendur hér og veifar og kallar fram í stanslaust.

(Forseti (LínS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ræðumaður í ræðupúlti hefur orðið.)

Þegar fólk lýsir miklum vonbrigðum með það að ríkisstjórnin vilji taka fyrirkomulag sölunnar til endurskoðunar þá hlýtur það að vera að gefa í skyn mikla ánægju með núgildandi fyrirkomulag. Ef svo er ekki þá vil ég heyra meira um það. En þetta slær mann dálítið einkennilega. Ég verð bara að segja alveg eins og er að ég held að það sé hægt að gera þetta betur. En ég held að það sé hægt að breyta fyrirkomulaginu og auka gagnsæi og upplýsingagjöf, sem er það helsta sem við erum að tala um. Umræður í ráðherranefnd eru ekki opinberar en ég get sagt að allir ráðherrar sem sitja í ráðherranefndinni tóku þátt þar. Ég vek athygli á því að það er Bankasýslan sjálf, sem í sínum skjölum sem hún leggur fyrir þingið eða sem eru grunnurinn að gögnunum sem komu fyrir þingið og voru í ráðherranefndinni, það er Bankasýslan sjálf sem er að vekja athygli á kostum og göllum þeirra ólíku leiða sem við stöndum frammi fyrir sem valkostum. Við ræddum öll þessa kosti og galla og meðal þess sem kom út úr vinnunni í ráðherranefndinni var það að þegar ég legg síðan fram skýrslu til þingsins um framhald sölunnar og fellst á tillögu Bankasýslunnar þá hef ég ákveðið að lyfta sérstaklega kaflanum þar sem fjallað er um að þegar frekari skref verða tekin þá ætlum við að draga lærdóm af þeirri sölu sem hér fór fram og við munum í framhaldinu leggja áherslu á almennt útboð og þátttöku almennings, dálítið ólíkt því uppleggi sem Bankasýslan lét okkur í té en þar var sú leið í raun og veru slegin út af borðinu. Og þetta skiptir allt saman máli. Þetta sem hv. þingmaður var að tína til úr yfirlýsingunni okkar vegna þess (Forseti hringir.) að án þess að við gripum inn í og kæmum með þessa yfirlýsingu þá (Forseti hringir.) stendur áfram opin söluheimild fyrir Bankasýsluna, t.d. til að miðla bréfum á markaði (Forseti hringir.) og við erum að lýsa yfir að við ætlum að hinkra með það.