Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna vegna þess að ég hef ekki haft tök á því að komast yfir afstöðu hv. þingmanns varðandi sölu á bankanum. Við í fjárlaganefnd skiluðum greinargerð um söluna og ég veit að hv. þingmaður skilaði sínu eitthvað seinna og ég fann það því miður ekki þegar ég var að leita í gögnunum mínum. Mig þyrstir því svolítið að vita í fyrsta lagi: Telur hv. þingmaður að Íslandsbanki eigi að vera í ríkiseigu? Telur hv. þingmaður það bara í grunninn rangt að selja Íslandsbanka og það sé þá kannski eðlilegt að ríkið eigi tvo af þremur viðskiptabönkum?

Í öðru lagi: Þegar og ef ríkið á banka, telur hv. þingmaður eðlilegt að það sé í því fyrirkomulagi sem sett var á laggirnar á sínum tíma þegar bankarnir komu í fangið á ríkinu í gegnum Bankasýsluna og þá með þessu svokallaða armslengdarsjónarmiði?

Í þriðja lagi: Telur hv. þingmaður að þrátt fyrir að við séum með fyrirkomulagið um Bankasýsluna, og þar af leiðandi armslengdina, að ráðherra eigi samt sem áður að fara yfir hvert og eitt tilboð og samþykkja? Og ef hv. þingmaður telur að lögin séu með þeim hætti þá spyr ég bara: Finnst hv. þingmanni það rétt? Hefði hv. þingmaður viljað að stjórnmálamaður, hæstv. fjármálaráðherra, hefði farið að skoða hvern og einn einasta kaupanda í þessu útboði og sagt að þessi væri til þess hæfur að fá að kaupa og þessi ekki, þrátt fyrir þau skilyrði sem sett voru í útboðinu?