Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ef við erum í rauninni sammála, sem ég hef ekki upplifað endilega, um að það sé ástæða til þess að selja bankana — mér finnst stundum margir hér inni tala með þeim hætti: Nei, við þurfum ekkert að eiga þá. En samt er aldrei rétti tíminn eða rétta aðferðin til að selja banka. En miðað við svar hv. þingmanns virðist hann taka undir að það sé einmitt ekki ástæða fyrir ríkið að eiga tvo af þremur viðskiptabönkum og þar af leiðandi sé eðlilegt að selja. Það ferli sem sett var á með Bankasýslunni var einmitt til að setja á þessa armslengd. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann tæki undir það og skynjaði það. Ég sé ekki að á sama tíma sé hægt að tala fyrir þessu fyrirkomulagi, að þetta sé það skynsama, sem ég er algerlega sammála og mörg rök hníga að því, en segja svo hinum megin að ráðherra eigi að fara yfir listann sem var búið að fela Bankasýslunni að selja og taka þar út einhverja aðila án þess að við séum að brjóta gegn þessu armslengdarsjónarmiði sem Bankasýslan öll snýst um. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég skil ekki þann þankagang hjá hv. þingmanni. Mér finnst algerlega verið að snúa umræðunni á hvolf. Ef hæstv. ráðherra hefði átt að skoða hvert tilboð, á hvaða forsendum hefði hann átt að taka einhvern út af listanum þegar Bankasýslunni var falið útboðið og það voru alveg skýrar reglur? Við kunnum að vera ósammála eða ósátt við þær reglur og viljum kannski hafa haft þær einhvern veginn öðruvísi en þær lágu þó fyrir og það er ekkert sem bendir til þess, alla vega enn sem komið er, að það hafi með einhverjum hætti verið brotið gegn þeim reglum. En klárlega eigum við að fara yfir það og ef það hefur verið brotið þarf að fara ofan í það og taka aftur þá gjörninga. En reglurnar voru skýrar. Þannig að ég spyr aftur hv. þingmann: Er í alvöru hægt að færa málefnaleg rök fyrir því að ráðherra hefði getað tekið einhvern út af þessum lista?