Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:05]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég tók þátt í að undirbúa svar meiri hluta fjárlaganefndar við bréfi fjármálaráðherra til nefndarinnar um fyrirhugaða sölu las ég yfir af nokkurri vandvirkni lögin um Bankasýsluna. Mín túlkun er sú að bæði ráðherrann og þingið hafi nokkuð bundnar hendur vegna þess að þetta armslengdarsjónarmið, sem okkur er tíðrætt um, bindi með einhverjum þeim hætti að ég sem tilheyri meiri hluta fjárlaganefndar geti ekki lagt til einhverja aðra söluaðferð eða aðra aðferð en Bankasýslan lagði upp með. Það var alfarið í höndum Bankasýslunnar. Mér finnst að þessi löggjöf frá 2012 hafi búið til einhvers konar einskismannsland fyrir Bankasýsluna til að starfa á og það er ekki síst af þeim ástæðum sem mér finnst eðlilegt (Forseti hringir.) að við skoðum lögin um Bankasýsluna, tilurð hennar, til að tryggja betur þennan þátt er varðar sölu fjármálafyrirtækja. (Forseti hringir.) Að öðru leyti vildi ég segja um lögin um Bankasýsluna að ég held að þau séu ágætlega úr garði gerð þegar kemur að vali á stjórnarmönnum og slíkum þáttum.