Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég gæti ekki verið meira innilega sammála henni. Við verðum líka að horfa á þessa söluþóknun sem var verið að borga, hvernig er hún fundin út? Hvað voru þessir menn að gera? Aðalklúðrið virðist hafa komið í gegnum þessa söluaðila eftir því sem upplýsingarnar komu fram. Hvað þurftu þeir að gera? Jú, það kom í ljós að þeir tóku upp símann og hringdu í einhverja valinkunna kunningja og þar á meðal fyrrverandi bankaráðsmenn. Ofboðslega erfitt, það þarf auðvitað að borga þetta alveg dýrum dómi. 700 milljónir bara fyrir þessi 22% sem var verið að selja núna og rúmlega 1,3 milljarða fyrir það sem var selt áður, 2 milljarðar. Þetta eru 2.000 milljónir. Við erum að tala um að það var hægt að kría út brot af þessari upphæð til að borga 25.000 kr. skatta- og skerðingarlaust um jólin fyrir þá sem áttu ekki fyrir mat. Ég segi bara: Ef við ættum bankann og fengjum 23 milljarða á ári í gróða og deildum þeim niður, tæpir 2 milljarðar á mánuði, hvað gætum við gert fyrir það? Jú, borgað 50.000 kr. skatta- og skerðingarlaust í hverjum mánuði. Hugsið ykkur hvað það væri geggjað fyrir fólkið þarna úti sem á ekki fyrir mat eftir viku, hálfan mánuðinn, hvað þá núna þegar vika er eftir af mánuðinum. En þá segir fjármálaráðherra: Þetta kostar svo mikið að það eru ekki til peningar fyrir þessu. Hræsni.