Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég geri mér alveg grein fyrir að enginn veit fram í tímann en við vitum líka heldur ekki hvað skeður ef við seljum. Við höfum reynslu af því að selja banka og hvernig fór það? Bankahrunið. Þegar misvitrir einstaklingar tóku við þessum bönkum og fóru að haga sér eins og bavíanar og ég veit ekki hvað og héldu að þeir gætu keypt heiminn á einni mínútu og væru snillingar í fjármálaviðskiptum. Hverjir sátu eftir og blæddi? Almenningur á Íslandi. Á meðan við erum ekki búin að gera þetta upp þá erum við ekki tilbúin til að ræða einu sinni bankasölu. Við ættum ekki einu sinni að vera að ræða bankasöluna í dag vegna þess að það er alveg lágmark — ég veit ekki hvort hv. þingmaður er sammála mér um það — en það er lágmark að við gerum upp gamla bankahrunið, að við gerum upp við þær fjölskyldur sem misstu heimili sín á sínum tíma, heimilin voru bara rifin af þeim og þau borin út með lögregluvaldi. Ég var vitni að því, bara borin út með lögregluvaldi, heimilið tekið af viðkomandi, börn grátandi, er búið að gera það upp, er búið að ræða það? Er búið að sjá til þess að bæta þeim einstaklingum sem urðu þarna fyrir skaða algerlega að ástæðulausu — vegna þess sumir urðu ekki fyrir neinum skaða, sumir fengu lánin sín niðurfelld, gátu svo bara haldið áfram. Við erum að sjá þá koma núna og kaupa í þessum banka, einstaklinga sem áttu stóran þátt í hruninu. Meðan svona hlutir er ekki gerðir upp eigum við ekki að selja banka og ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður sé sammála mér í því að við eigum að klára hlutina og koma því þannig fyrir að við séum með samfélagið sátt. 83% þjóðarinnar eru á móti þessu. Og hvers vegna skyldi það vera?