Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég talaði einmitt um það í ræðu minni að algjört gegnsæi ætti að ríkja um ferlið. Það var hins vegar ekki þannig, það átti ekki að birta þennan lista. Ég tel að það hefði átt að gera það strax og ég tel að stjórnvöld hefðu ekki átt að þurfa að taka ákvörðun um að birta listann, það hefði átt að vera búið að birta hann. En þar sem það var ekki gert þá var mjög mikilvægt að sú ákvörðun skyldi hafa verið tekin að birta listann. Ég tel að menn hafi ekkert verið að guma sig af því sérstaklega heldur er bara verið að halda því til haga að hann var birtur. Það skiptir máli. Þar held ég að ég og hv. þingmaður séum sammála. Mér finnst aðalatriðið vera að listinn var birtur og hann átti alltaf að birtast.