Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það, við þurfum tímabundið a.m.k. armslengd frá Sjálfstæðisflokknum. Ég hjó eftir því á Sprengisandi um helgina að þar var hæstv. fjármálaráðherra spurður um bankasöluna. Hann sagði að í heildarsamhenginu og í stóru myndinni hefði þetta gengið alveg glimrandi vel. Þá var hann spurður: En af hverju lögðu þið þá niður Bankasýsluna ef þetta gekk svona vel? Þá svaraði hann: Hefur þú ekki tekið eftir því að það er víðtækt vantraust í samfélaginu á henni og þess vegna gerum við það. Þá hlýtur maður að halda áfram; ef það voru rökin fyrir að Bankasýslan var lögð niður, ekki neitt annað — það var líka vantraust á fjármálaráðherra fyrir söluna. Ætlar hann að bregðast við á sama hátt og leyfa þjóðinni, þessum 83% sem ekki hafa traust á þessari sölu, sem eru hrædd við þetta ferli — ætlar hann að bregðast við með sama hætti og stíga þá til hliðar? Það kemur í ljós á næstu dögum. Ég efast um að hann geri það og mér sýndist ekki á honum í dag að hann væri á þeim buxunum. En miðað við svörin á Sprengisandi væri auðvitað eðlilegast að hann gerði það.