Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:15]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að gefa þinginu þessa skýrslu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta rætt þetta mál mjög ítarlega og ég ætla jafnframt að nota tækifærið og kalla eftir því að aðrir ráðherrar sem sæti eiga í ráðherranefndinni komi sömuleiðis hér fyrir þingið og tali við okkur milliliðalaust. Mér skilst nú reyndar að það standi til með forsætisráðherra á morgun og það er fagnaðarefni. En ég fagna því líka að menn eru búnir að tala svolítið mikið um traust hér í dag og í kvöld í þessari umræðu. Það er nefnilega hugtak sem skiptir mjög miklu máli en það vantar alltaf svolítið að ræða það vegna þess að þegar við erum að tala um það hvernig gekk að selja, og sérstaklega er það áberandi hjá hæstv. fjármálaráðherra, þá er talað um að merki þess að útboðið hafi verið vel heppnað sé yfirleitt verðið, dreifing, góður eftirmarkaður og þess háttar hlutir. Menn tala hins vegar minna um traust. Fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Páll Magnússon, setti þetta nú ágætlega fram í dag í grein þar sem hann nefndi það einmitt að eitt af því sem skipti höfuðmáli væri kannski ekki verðið, dreifingin eða eftirmarkaðurinn heldur það að almenningur sem á eignina treysti því að vel hafi verið gert og vel hafi verið staðið að verki. Og af hverju skiptir þetta máli? Þetta skiptir auðvitað máli vegna þess að við vorum fyrir ekki mjög löngum tíma síðan með heilt bankahrun í fanginu. Eftirmál þess tóku mörg ár, þjóðin enn í sárum og það er svo stutt niður í þessa kviku að manni finnst að þegar farið er af stað í að einkavæða banka þá hafi menn náð einhvern veginn að aftengja sig þeim veruleika sem verið er að selja eignina í. Það er kannski lærdómurinn sem hægt er að draga af þessu. Það er ekki nóg að setja alls konar fín skilyrði sem snúa að fjármálagjörningum eða slíku heldur eru þessi siðrænu þættir ekki síður mælikvarði sem við þurfum að hafa til hliðsjónar þegar við erum að selja eigur ríkisins.

Annað sem hefur svolítið verið talað um í þessu er að það hefði kannski mátt standa betur að kynningu þessara mála. Það er eitt kjarnaatriðið í þessu, kynningin sem fram fór á þessu var rosalega miðuð við fjármálamarkaðinn og miðuð við fjárfesta og aðra þá sem myndu mögulega taka þátt í þessu útboði. En það var lítið gert af því að kynna fyrirkomulagið fyrir eiganda bankans, þjóðinni. Þá komum við aftur að þessu með traustið. Ef eigandinn, sá sem er að selja, er ekki sáttur við ferlið hvernig í ósköpunum getum við þá gengið hnarreist frá borði og sagt að þetta sé vel heppnað? Traustið ætti í raun að vera og ábyggilegheitin öll í kringum þetta ætti í rauninni að vera sterkasti mælikvarðinn þegar við erum að selja banka ekki þetta löngu eftir bankahrun. Það er algjört lykilatriði í þessu. Og það er alger pólitískur ómöguleiki, svo ég noti það hugtak, að ætla að halda því fram að hægt sé að tala um eitthvert traust þegar eigandalistinn lítur út eins og hann gerði þegar var búið að draga loks út þann lista með töngum og eftirgangsmunum vegna þess að mönnum hafði hugkvæmst að það ætti að vera hægt að selja eigur ríkisins án þess að almenningur fengi að vita hverjir keyptu.

Við erum auðvitað með þá stöðu núna að arfleifð Sjálfstæðisflokksins í gegnum þetta ferli er að hann er sennilega eini hægri flokkurinn í heiminum sem hefur tekist í miðju einkavæðingarferli, í miðju söluferli á banka, að festa í sessi eignarhald ríkisins á bankakerfinu hérna á Íslandi. Það mun örugglega líða langur tími þangað til að restin af Íslandsbanka verður boðin út til kaups og ástæðan fyrir því er ofur einföld. Það ríkir ekki traust. Það er ekki nóg að koma hér eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði í dag og leggja það til við þingið að leggja niður Bankasýsluna og svo ætlum við að finna út úr því í þinginu hvernig eigi að halda á framhaldinu. Það er nefnilega þannig að það er alveg hægt að selja banka þannig að sómi sé að með Bankasýslunni. En það er líka hægt að gera það án Bankasýslunnar. Vandinn er að það eru ekki fyrirkomulagið sjálft sem skapar traustið núna þegar búið er að ryðja því algerlega úr vegi með þessari mislukkuðu einkavæðingu. Núna erum við nefnilega svolítið með það andrúmsloft í fanginu að þjóðin treystir ekki þessari ríkisstjórn til að halda áfram að fara með eigur almennings og bjóða til kaups. Þannig blasir bara landslagið við okkur í dag og fram hjá því munum við örugglega ekkert komast.

Mig langar að gera hér að umtalsefni að það hefur verið gert svo mikið úr forsögunni á því að ríkið hafi fengið þessar eigur í fangið og síðan hafi einhver hetjuskapur manna leitt til þess að það var hægt að búa til einhver óskapleg verðmæti. Gjarnan sett þannig upp að við höfum fengið bankann án endurgjalds. Ég er alveg hjartanlega sammála því sem kom fram hér í ræðu fyrr í kvöld hjá hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur. Við getum ekki stillt hlutum þannig upp því að við vitum það öll að þetta ömurlega umrót sem varð til þess að ríkið fékk bankana í fangið, við getum ekki talað um að það hafi verið án endurgjalds. Það er bara lítilsvirðandi gagnvart öllu því fólki sem enn er að sleikja sárin eftir bankahrunið.

Síðan verðum við aðeins að tala um ábyrgðina og þennan mikla ábyrgðarflótta sem við höfum verið að sjá í þessu máli. Ég hef haldið til haga í dag setningu sem mér finnst algjört lykilgagn í þessu öllu. Það er það sem Bankasýslan segir eftir að fram kemur tilkynning um að það eigi að leggja Bankasýsluna niður. Þetta er mjög áhugavert vegna þess að þetta segir alla söguna.

„Framkvæmd útboðsins fór eins fram og því hafði verið lýst af hálfu stofnunarinnar frá upphafi til loka, í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru.“

Ég ætla bara að afdulkóða þetta ef menn vilja það. Þarna er Bankasýslan í raun og veru að segja: Ef við erum ábyrg þá er fjármálaráðherra líka ábyrgur, þá eru stjórnvöld líka ábyrg. Það er ekkert annað sem felst í þessum orðum. Menn skulu hafa í huga samhengið sem þessi orð falla í, rétt eftir að búið er að lýsa því yfir að það standi til að leggja niður Bankasýsluna. En ábyrgðarflóttinn er auðvitað alger. Það á að reyna að koma sér undan ábyrgð með því að leggja niður Bankasýsluna. Svo á að láta Ríkisendurskoðun fara í gegnum einhvern hluta af þessum málum og það er verið að tala um að Fjármálaeftirlitið skoði síðan ákveðinn anga sem snýr að söluráðgjöfunum og því öllu. En menn tala hins vegar minna um það og enginn er að velta fyrir sér þessum punkti sem Bankasýslan setur upp, þ.e. að stjórnvöld voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru og bera því nákvæmlega sömu ábyrgð og Bankasýslan á sjálfri framkvæmdinni. Flóknara er það nú ekki. Við getum ekki skýlt okkur endalaust á bak við þetta tal um armslengd því armslengdinni er ætlað að tryggja ákveðna fjarlægð en hún á ekki að fjarlægja pólitíska ábyrgð. Ég get alveg sagt það hér að ég hef ekki verið í hópi þeirra sem hafa kallað eftir því að fjármálaráðherra eigi að segja af sér. Ég hef kallað eftir því að rannsóknarnefnd Alþingis eigi að skoða málið og í framhaldinu verði hægt að taka einhverja afstöðu til þess nákvæmlega hvar ábyrgðin liggur. En það er hins vegar heilmikið til í því sem hefur verið sagt. Þegar ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að leggja niður Bankasýsluna þá er hún að kalla yfir sig ábyrgð af þeirri stærðargráðu að hún er í raun og veru að biðja alla þjóðina, þingmenn, þingheim, um að taka afstöðu til þess hvort pólitíska ábyrgðin sé ekki jafn mikil og ábyrgðin sem Bankasýslan ber.

Við sjáum hér líka hjá stjórnarþingmönnum vilja þeirra til að falla á sverðið þegar kemur að þessari ábyrgð. Þeir hafa komið hér nokkrir, stjórnarþingmennirnir, og talað mikið um það að þeir hefðu kannski átt að spyrja öðruvísi í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd og skoða málin kannski með gagnrýnni hætti þegar þingið fékk þetta til meðferðar. Nú eru menn að reyna að kasta sér á sverðið einhvern veginn fyrir hæstv. fjármálaráðherra og fyrir ríkisstjórnina. Þeir tala um að þeir hafi kannski ekki áttað sig á því að það ætti að setja eitthvert gólf á fjárhæðir, setja lágmarksfjárhæðir í útboðinu. Þeir hafi ekki séð það fyrir að söluráðgjafarnir myndu sjálfir kaupa og þar fram eftir götunum. Það gat enginn séð þetta fyrir því að það var aldrei neitt talað um að þetta gæti farið í þá átt. Auðvitað hafa menn einhvers konar lágmarkstraust til þess, þegar verið er að kynna eitthvert ákveðið ferli, að menn séu ekki að stíga langt út fyrir þann ramma í framkvæmdinni. Það gat ekki verið þannig að neinum þingmanni hafi átt að detta það í hug að söluaðilar væru mögulega kaupa í útboðinu. Ef söluaðilar eru sjálfir að taka þátt þá þýðir það, fyrir utan augljósa vanhæfið, að hlutabréfamiðlarar fjármálastofnana (Forseti hringir.) voru í raun að taka háa þóknun fyrir að selja sjálfum sér (Forseti hringir.) eign ríkisins með afslætti. Þetta gat engum dottið í hug, ekki nokkrum manni.

Tími minn er á þrotum. Ég hefði örugglega getað talað hér talsvert lengur um þetta mál en ætla að láta gott heita í bili.