Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[23:35]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir sína skýrslu hér fyrr í dag og jafnframt fara aðeins yfir þetta mál. Tillagan um sölu á Íslandsbanka var og er í samræmi við þann stjórnarsáttmála sem í gildi er á milli ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð. Þar er gert ráð fyrir á kjörtímabilinu að ríkissjóður haldi áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta þann ábata til uppbyggingar innviða sem var orðin rík þörf á og ber þar kannski hæst að nefna samgöngukerfið okkar, vegakerfið, og auk þess að greiða niður skuldir sem er skynsamlegt og sérstaklega eftir þann heimsfaraldur sem við höfum verið að ganga í gegnum, Covid.

Til viðbótar þessu verður auðvitað að nefna að skynsamlegt er að mínu mati og til lengri tíma að minnka áhættu ríkisins af eignarhlutum. Það kom m.a. fram í þeim umsögnum sem komu til okkar í efnahags- og viðskiptanefnd. Það má nefna að tækniframfarir sem hafa orðið í fjártækni og skapað hafa tækifæri í rekstri banka geta falið í sér talsverða áhættu. Því fylgir auðvitað að bankar þurfa að aðlaga sig að þeirri þróun með talsverðri fjárfestingu og áhættutöku sem ég tel að sé ekki skynsamlegt til lengri tíma að ríkið taki eitt og sér.

Við þetta má auðvitað bæta og taka til ýmislegt annað en það er kannski sérstaklega það sem fram hefur komið frá Samkeppniseftirlitinu sem hefur tekið undir það sjónarmið að það sé í raun óheppilegt að ríkið sé meirihlutaeigandi í tveimur viðskiptabankanna þriggja og horfi þá sérstaklega á það út frá samkeppnislegu tilliti. Eitt af markmiðunum í þessu öllu saman er að efla virka samkeppni á þessum markaði hér á landi.

Það er mín skoðun að ég tel að fyrri salan í Íslandsbanka hafi heppnast vel og á henni hafi verið nokkuð gott traust og mikið. En nú erum við að ræða seinni söluna og mér finnst ágætt að fara yfir hvernig þau mál hafa þróast. Þetta er meðal þeirra sjónarmiða sem ég hef sjálfur horft til í umfjöllun okkar í efnahags- og viðskiptanefnd og þegar við skiluðum umsögn okkar til ráðherra vegna þessarar sölu, að markmið sölunnar voru, auk þeirra sem ég hef áður nefnt, að byggja upp innviði og greiða niður skuldir, voru einnig að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af hlutnum, að stuðla að fjölbreyttu og heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og að auka fjárfestingarmöguleika fjárfesta.

Að þessu sögðu og með þetta fyrir framan okkur, sérstaklega þegar kemur að heilbrigðu eignarhaldi og dreifðu til lengri tíma, þá var það svona túlkun að þarna væri sérstaklega átt við fjárfesta sem væru stórir og, eins og fram hefur komið í umræðum fyrr í dag, að hér væri um að ræða fjárfesta sem gætu staðið með bankanum í gegnum súrt og sætt og væru komnir til að vera yfir lengri tíma og væru öflugir. Auðvitað er það í einhverjum tilfellum með þeim hætti en ég verð hreinlega að segja það að þrátt fyrir góðar kynningar Bankasýslu ríkisins til okkar í nefnd þá er það tilfinning mín að framkvæmdin hafi ekki endurspeglað að fullu það sem fram kom. Það er bara minn skilningur og upplifun af þessu máli. Auk þess verður að segjast að líklega hefði það þurft að koma fram og mátt koma fram einhvers staðar í ferlinu, alveg sama hvað hver segir, að við hefðum mögulega átt að leggja til einhvers konar þak eða lágmark eða annað slíkt, einhverjar kröfur á aðila til að tryggja það sem fram kemur og hefur komið í hvítbók fyrir fjármálakerfið um heilbrigt og fjölbreytt eignarhald á þessum fyrirtækjum. Það er að þessu leyti fullkomlega eðlilegt að um þetta ferli þessarar sölu séu skiptar skoðanir. Ég held að við höfum öll, þingmenn og aðrir, tekið eftir því að ýmislegt hefur komið upp sem gefur tilefni til þess að rýna ákveðna þætti í þessari framkvæmd. Þar má auðvitað nefna það og taka sérstaklega fram að þarna voru aðilar sem voru að kaupa fyrir lága upphæð, jafnvel með neikvætt eigið fé og orðrómur um að söluaðilar hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu. Þetta eru allt þættir sem við þurfum að komast til botns í og fá þessi atriði á hreint fyrir fullt og allt og það gerum við að mínu mati með því að treysta þeirri rannsókn eða skoðun sem nú er farin af stað af hálfu Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits Seðlabankans, að kanna og fara ítarlega yfir þá þætti sem ég tel að hafi valdið, og nefndi áðan, tortryggni á þessu ferli. Ég hef sjálfur sagt að komi eitthvað upp í þeirri skoðun þá mun ég að sjálfsögðu styðja að það verði rannsakað, þeir þættir, það sem upp kemur og ríkið taki ákvörðun um að fara í slíka rannsókn. Það er mikilvægt þegar við erum að tala um almannaeign eða ríkiseign og sölu á henni, eins og í þessu tilfelli sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, að um það ferli ríki fullkomið traust. Samhliða því þarf það ferli auðvitað vera gagnsætt. Mín upplifun er að það traust sem ég nefndi að hefði verið til staðar við fyrri sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullkomlega til staðar í dag.

Varðandi Bankasýsluna og stöðu og framtíð hennar þá held ég að það hafi verið ákall, ég hef a.m.k. skynjað það, um breytingar á allri umgjörðinni þegar kemur að því hvernig við höndlum með eignarhlut ríkisins til framtíðar í fjármálafyrirtækjum og þess vegna sé skynsamlegt að bregðast við þessu ákalli með þessum hætti. Ég held að skoðun Ríkisendurskoðunar, sem er að taka sérstaklega út stjórnsýsluþáttinn í þessari framkvæmd, geti hjálpað okkur öllum í því verkefni að finna fyrirkomulag sem nauðsynlegt traust verði á til framtíðar.